Áfangalýsingar - Nýir áfangar

Hér eru stuttar lýsingar á nýjum áföngum sem hafa ekki verið kenndir áður og eiga því ekki áfangalýsingu á vefnum.

ENSK3FO05 Ferðaenska
Í áfanganum er fengist við enskan fagorðaforða úr ferðamennsku. Nemendur þjálfa sig í því að vera með leiðsögn um allt það sem séríslenskt getur talist.
Áfanginn er verklegur og bóklegur. Farið verður í vettvangsferðir, bæði utandyra og innan, þar sem nemendur æfa sig í því að segja frá landi og þjóð á þjálli ensku. Gengið verður á fjöll, farið í heimsókn í reiðhöllina í Mosfellsbæ, gönguferðir um Reykjavík og Mosfellsbæ þar sem nemendur æfa sig í leiðsögn um ákveðið svæði.
Áfanginn er sérstaklega gagnlegur þeim sem hafa áhuga á hestamennsku, útivist, menningu og fólki, og sjá fyrir sér að vinna í ferðamannabransanum í framtíðinni.
Undanfari: ENSK2TM05


KFRT2YS03 Tölvuleikir - Yndisspilun
Í áfanganum spila nemendur tölvuleiki sér til ánægju með því markmiði að gefa nemendum tækifæri á að skoða fjölbreytta tölvuleiki og þróa með sér dýpri skilning á tölvuleikjum. Áfanginn er ekki í töflu. Nemendur vinna sjálfstætt að verkefnum og þjálfast í greiningu og umræðu um tölvuleiki.
Undanfari: Enginn

LÝÐH1HU01 Hreyfing utan skóla
Þessi áfangi kemur í stað áfanganna hjólað/gengið í skólann, útivist og ræktin og nær utan um alla hreyfingu nemenda utan skólans.
Undanfari: LÝÐH1HN01 eða LÝÐH1HR01

MEMA3MM03 Menntamaskína
MEMA3MM03-Menntamaskína er áfangi í samstarfi við FAB LAB Reykjavík, þar sem markmiðið er að virkja framhaldsskólanemendur til nýsköpunar í þverfaglegu samstarfi við sérfræðinga og hagsmunaaðila. Nemendur vinna saman að einu verkefni er spannar alla önnina í 3—5 manna teymum. Teymin fara í gegnum svokallaða spretti þar sem áhersla er lögð á að leita lausna við vandamálum. Með aðstoð fagaðila og Fab Lab vinna þeir í því að útbúa frumgerð að þeirri lausn. Maskína lýkur með verðlaunaafhendingu í nóvember. Í MEMA 2022 munu teymin styðja sig við Heimsmarkmið 2: Ekkert hungur.
Undanfari: Nemendur þurfa að hafa lokið 120 einingum í framhaldsskóla

NÆÞJ3LN05 Líkami og næring
Í áfanganum er lögð áhersla á að nemendur dýpki þekkingu sína á áhrifum næringar og mataræðis á líðan og heilsu einstaklinga. Einnig verður kafað dýpra ofan í lífeðlisfræði þjálfunar.
Undanfari: NÆÞJ2LN05

 

UMHV3SM05 Sjálfbærni, matur og meðvituð neysla
Í áfanganum verður lögð áhersla á sjálfbærni í víðu samhengi með áherslu á matarmenningu, landfræðilegs uppruna, hreint hráefni og mikilvægi lífrænnar fjölbreytni. Meðal verkefna áfangans eru vettvangsferðir þar sem sótt er hráefni í íslenska náttúru og samhliða því að fræðast um hráefnið er unnið úr því í eldhúsi skólans. Slow food hugmyndafræðin verður í forgrunni þar sem fræðst er um smáframleiðendur, lífræna ræktun, líffjölbreytni og þá hreyfingu sem er að eiga sér stað á því sviði.
Slow food stendur fyrir stórum viðburði sem er haldinn á Ítalíu hvert ár þar margir mestu sérfræðingar á sviði menningarlegrar matvælaframleiðslu og matseldar víðs vegar af úr heiminum. Stefnt er að því að fara út með nemendahópinn þangað.
Undanfari: NÁTT2GR05 eða UMHV2UN05