Innritun
Nemendur innrita sig í skólann í gegnum vef Menntamálastofnunar, www.mms.is
Kynningarfundur
Nýir nemendur í skólanum eru boðaðir á kynningarfund í byrjun annar. Þar fá nemendur upplýsingar um skólastarfið ásamt kynningu á húsnæði. Í upplýsingabæklingnum Klöru, sem er á vef skólans, eru handhægar upplýsingar um skólastarfið.
Umsjón
Allir nemendur yngri en 18 ára fá umsjónarkennara sem er tengiliður hans gagnvart skólanum og heldur utan um mál hans; námsframvindu og ástundun ásamt því að benda á úrræði ef um náms- eða tungumálaörðugleika er að ræða.
Umsjónarkennari er tengiliður milli foreldra/forráðamanna og skólans. Umsjónarkennari heldur umsjónarfundi aðra hverja viku í verkefnatímum og boðar nemendur auk þess í einstaklingsviðtal tvisvar sinnum á önn, á fyrstu vikum annarinnar og eftir miðannarmat. Umsjónarkennarinn og nemandi skipuleggja val nemandans fyrir næstu önn í sameiningu á meðan valtímabil stendur yfir.
Umsjónarkennari leiðbeinir umsjónarnemendum sínum með kennslukerfi, Innu, kennsluhætti, námsmat og verkefnaskil.
Lífsleikni (LÍFS)
Í lífsleikniáfanganum Ég, skólinn og samfélagið, er stuðlað að styrkingu félagstengsla milli nemenda. Viðfangsefni áfangans styrkja nemendur til að takast á við krefjandi nám og leggja þannig grunn að frjóu menntasamfélagi. Nemendur fara í ferð á haustönn. Tilgangur ferðarinnar er að hrista nemendur saman og þeir fái tilfinningu fyrir skólabrag FMOS. Áfanginn nær yfir fyrstu tvær annir skólagöngunnar í FMOS.
Viðbótarúrræði fyrir nemendur með íslensku sem annað mál
Íslenskukennsla
Nemendur sem hafa annað móðurmál en íslensku fá kennslu í íslensku sem öðru tungumáli. Samhliða þjálfun í íslensku máli fer fram kynning á íslenskri sögu og menningu. Kennslan er í sérstökum kennslustundum og verkefnatímum. Í verkefnatímum gefst nemendum kostur á að vinna heimanám í öllum námsgreinum undir handleiðslu íslenskukennara í samráði við viðkomandi námsgreinakennara. Í boði eru tveir þriggja eininga áfangar á 1. þrepi og nýtast sem valeiningar á stúdentsbrautum skólans.
Í kjarna stúdentsbrauta eru samtals 20-25 ein. í íslensku, þar af eru 10 ein. á 2. þrepi og 10-15 ein. á 3. þrepi eftir því á hvaða braut nemandi er skráður. Erlendir nemendur sem ætla sér að ljúka stúdentsprófi þurfa að ljúka jafnmörgum einingum í íslensku og er í kjarna þeirrar brautar sem þeir stunda nám á. Hægt er að taka áfanga í íslensku sem öðru máli á 2. og 3. þrepi í öðrum framhaldsskólum sem bjóða upp á slíkt og fengið þá metna til eininga sem nýtast í stað íslensku í kjarna stúdentsbrauta. Þeir nemendur sem hafa áhuga á þessu þurfa að velja áfanga í samráði við áfangastjóra skólans áður en þeir skrá sig.
Síðast breytt: 11. ágúst 2022