Ársskýrsla Framhaldsskólans í Mosfellsbæ fyrir 2015

Ársskýrslan var unnin af skólameistara og aðstoðarskólameistara snemma á árinu 2016

Inngangur

Uppbygging skólastarfs í Framhaldsskólanum í Mosfellsbæ hélt áfram á árinu 2015 og sem fyrr var megináherslan á að styðja við og koma hugmyndafræði skólans og stefnu í framkvæmd.

 

Nemendur

Á vorönn 2015 voru nemendur 343 og á haustönn 2015 voru þeir 390. Meirihluti nemenda skólans eru úr Mosfellsbæ og nágrannabyggðum (Grafarvogur, Grafarholt, Kjalarnes, Akranes), eða um 80%. Kynjahlutfall hefur verið í nokkuð góðu jafnvægi. Fjöldi nýnnema sem sækja um FMOS beint eftir 10. bekk fjölgaði til muna haustið 2014 frá því sem verið hafði. Svipaður fjöldi sótti um vorið 2015 en bæði þessi ár hefur skólinn getað tekið við öllum umsóknum frá nýnemum. Um það bil helmingur nýnema kemur úr grunnskólum Mosfellsbæjar. Við innritun vorið 2015 hafnaði skólinn um 100 umsóknum um skólavist frá nemendum sem eiga það sameiginlegt að vera 18 ára eða eldri. Ef fram fer sem horfir þá á yngri nemendum enn eftir að fjölga við skólann á kostnað þeirra eldri.

 

Heiti brautar Vorönn 2015 Haustönn 2015
Almenn námsbraut 42 75
Félags- og hugvísindabraut 106 97
Hestabraut 15 18
Listabraut 43 30
Íþrótta- og lýðheilsubraut 19 21
Náttúruvísindabraut 65 67
Opin stúdentsbraut 43 70
Sérnámsbraut 1 10 12
Árgangur Vorönn 2015 Haustönn 2015
1957-1987 4 4
1988 1 1
1989 3 2
1990 5 3
1991 7 6
1992 9 8
1993 24 21
1994 29 23
1995 41 25
1996 61 44
1997 67 71
1998 92 88
1999   94

 

Kyn Vorönn 2015 Haustönn 2015
KK 181 206
KVK 162 184

 

Breidd í námsgetu nemenda er mikil þar sem fjöldi sterkra námsmanna er að aukast en engu að síður er hópur nemenda í skólanum sem glímir við margskonar námsörðugleika og margir af eldri nemendum skólans eiga töluvert brotinn námsferil að baki. Mikil reynsla hefur orðið til í skólanum við að kenna eldri nemendum með brotinn námsferil. Þetta staðfestir rannsókn Ingólfs Ásgeirs Jóhannessonar og Valgerðar S. Bjarnadóttur, „Meaningful education for returning-to-school students in a comprehensive upper secondary school in Iceland“

http://www.tandfonline.com/eprint/AbFtvrPmhDjZdEkteFTx/full

Í greininni kemur meðal annars fram það viðhorf nemenda að skólabragurinn einkennist af gagnkvæmri virðingu.

 

Brotthvarf nemenda er enn alltof hátt, a.m.k. ef það er reiknað út frá einingafjölda. Við sjáum breytingar í þá átt að nemendur hætta ekki endilega í skólanum, en ljúka færri einingum. Sem aðgerð til að draga úr eininga brotthvarfi þarf að sjá til þess að námsval nemenda á milli anna taki mið af loknum einingum nemenda á námsferli.

 

Nám

Boðið er upp á nám á 8 námsbrautum í skólanum, þ.e. nám á almennri braut, listabraut, íþrótta- og lýðheilsubraut, hestabraut, félags- og hugvísindabraut, náttúruvísindabraut, opinni stúdentsbraut og sérnámsbraut. Námsframboðið er í samræmi við áherslur skóla og ráðuneytis og er nokkuð fjölbreytt. Nám á almennri braut er ætlað nemendum með ónógan undirbúning fyrir nám á öðrum brautum. Listabraut, íþrótta- og lýðheilsubraut og hestabraut eru til framhaldsskólaprófs. Sérnámsbraut er ætluð fyrir nemendur með fötlunargreiningu og er skipulögð sem 7 - 8 anna nám. Aðrar brautir eru til 200 eininga stúdensprófs þar sem meðal námstíminn er 7 annir.

 

Þróunarstarfið í FMOS skiptist í tvo meginhluta, þróun kennsluhátta annars vegar og innleiðingu nýrra laga um framhaldsskóla hins vegar. Áherslupunktarnir í þróun kennsluhátta snúast um verkefnamiðaðar kennsluaðferðir og leiðsagnarmat sem fléttast saman við kennsluaðferðirnar. Þróunarvinnan sem tengist innleiðingu laga nr.92/2008 felst einkum í uppbyggingu og útfærslu námsbrauta og áfangalýsinga, auk þess hafa áfangalýsingar verið endurskoðaðar og áfangarnir tímamældir með tilliti til samhengis eininga og vinnu nemenda. Unnið er að endurskoðun styttri námsbrauta þannig að hægt verði að sækja um samþykki þeirra til ráðuneytisins mennta- og menningarmála

Starfsmenn

Tveir stjórnendur eru í skólanum, skólameistari og aðstoðarskólameistari, báðir í 100% stöðu. Við skólann starfar deildarstjóri sérnámsbrautar í hlutastarfi. Tveir námsráðgjafar eru við skólann í 160% stöðu til samans. Þrír sviðsstjórar eru við skólann stjórnendum til aðstoðar. Ráðning sviðstjóra rennur út í sumar og þar með gefst tækifæri til þess að endurskoða fyrirkomulagið. Kennarar á haustönn voru 32 í 28 stöðugildum og aðrir starfsmenn 10 í 8 stöðugildum. Heildarstarfsmannafjöldi var því 42. Allir kennarar eru með kennsluréttindi og háskólamenntun í sinni kennslugrein og meirihluti þeirra með masterspróf

 

Kennsluhættir skólans eru í aðalatriðum þannig að notaðar eru fjölbreyttar verkefnamiðaðar kennsluaðferðir og leiðsagnarmat, og stundataflan er brotin upp með verkefnatímum þar sem kennarar eru til taks og nemendur stjórna sjálfir í hvaða verkefnatíma þeir mæta. Kennsluaðferðirnar miða að því að nemendur séu virkir þátttakendur í námi sínu og tileinki sér námsefnið í gegnum verkefni sem þeir vinna. Áhersla er síðan lögð á að leiðsagnarmatið leiði nemendur áfram og hjálpi þeim að bæta árangur sinn.

Skipulag kennslunnar og kennsluhættir hafa reynst í öllum meginatriðum vel. Nánari útfærsla og þróun á aðferðunum eru stöðugt til umræðu á vikulegum fundum starfsmanna og ákvarðanir teknar jafnóðum um breytingar. Kennarar skólans eru vel menntaðir og kraftmiklir, og mikil orka felst í þeim áhuga og frumkvöðlaanda sem ríkir í skólanum.

Mat

Uppbygging gæðakerfis skólans miðar að því að það sé altækt og umbótamiðað. Í áætlun um sjálfsmat er gerð grein fyrir þeim þáttum sem hafa verið og verða metnir, og í sjálfsmatsskýrslu er gerð grein fyrir umbótum í framhaldi af matinu, sjá vef skólans, Sjálfsmatsskýrslur.

Fjármál, rekstur, aðbúnaður

Stefnt er að því að halda fjárhagslegri stöðu skólans í jafnvægi á hverjum tíma þ.e. að kostnaður við rekstur skólans fari ekki fram úr fjárheimildum sem honum eru ætlaðar á hverjum tíma. Þetta hefur ekki tekist fyllilega og þar munar að okkar mati mestu um hversu margir nemendur hafa verið að fækka hjá sér einingum eftir að skipulagt skólastarf er hafið. Á þessu er verið að vinna þannig að námsval á milli anna sé í samræmi við námsárangur síðustu annar.

 

Rekstrarstaða skólans í árslok 2014 var neikvæð um tæpar 45 m.kr. Við uppgjör vegna framhaldsskóla fyrir árið 2015 komu 48 m.kr. í hlut skólans. Rekstrarafkoma ársins 2015 er neikvæð um 13 m.kr. og hefur þá batnað um 32 m.kr. á milli ára og þar munar öllu áður nefnt framlag frá ráðuneyti mennta- og menningarmála. Stefnt er að því að ná þessum halla niður rekstrarárið 2016.

Nýting starfskrafta var góð miðað við stærð skóla og var meðalhópastærð um 18,5 nemendur og á árinu 2015 voru um 11 m2 á nemanda en húsið er byggt fyrir 550 nemendur og þá verða um 7 m2 á nemanda.

Samstarf við aðra

Skólinn er í samstarfi við ýmsa aðila í Mosfellsbæ, s.s. grunnskóla bæjarins, íþróttafélagið, Reykjalund, tónlistarskólann, myndlistarskólann og Hestamannafélagið Hörð. Á næstu misserum verður samstarfið þróað áfram.

 

 

Mosfellsbær, 19. febrúar 2016

 

Jón Eggert Bragason, skólameistari

Guðrún Guðjónsdóttir, aðstoðarskólameistari