Ársskýrsla Framhaldsskólans í Mosfellsbæ fyrir 2019

Ársskýrslan er unnin af skólameistara og aðstoðarskólameistara í maí 2020

Árangur af markmiðasetningu í stefnumiðaðri áætlun 2020-2022: Staða árangursmælikvarða.

Kjarnastarfsemi:

Markmið 1 er að fjölga nemendum sem ljúka prófi úr framhaldsskóla.
Fyrsti árangursmælikvarðinn er að hlutfall nemenda sem útskrifast á tilskildum tíma fari vaxandi, fari úr 37% 2018 og í 40% 2022. Okkur sýnist hlutfallið breytist lítið frá 2018 til 2020, haldist nær óbreytt í 37%. Annar árangursmælikvarðinn er lengd stúdentsprófsins, þar sem skoðaðir eru nemendur sem taka allt sitt nám til stúdentsprófs í FMOS og hvað þeir taka langan tíma í það. Við gerðum ráð fyrir að meðallengd stúdentsprófsins væri 3,6 ár 2018 og gerum ráð fyrir að 2020 muni meðallengdin breytast lítið, sé 3,6 til 3,7. Þriðji og síðasti mælikvarðinn er brotthvarf nemenda sem hefur verið á hægri niðurleið undanfarin ár. Brotthvarfið var um 9% 2018 og við gerðum ráð fyrir að það væri komið í um 8% 2020. Því miður eru ekki líkur á að það rætist vegna COVID-19 ástandsins á vorönn 2020 og jafnvel líkur á því að brotthvarfið aukist eitthvað.

Markmið 2 er að nemendur skólans hafi aðgengi að fjölbreyttu bóknámi sem uppfyllir kröfur næsta skólastigs og/eða atvinnulífs.
Árangursmælikvarðinn er að árangur útskrifaðra nemenda í háskólum sé samanburðarhæfur við aðra framhaldsskóla. Eitt af verkefnunum sem er á dagskrá á haustönn 2020 er að endurskoða áfangalýsingar og kennslu í áföngum á 3. þrepi með tilliti til gæða náms á 3. þrepi.
Við gerum ráð fyrir að 15% útskrifaðra nemenda hafi lokið háskólanámi 2018. Gerð var könnun meðal útskrifaðra veturinn 2018-2019 og þar kom fram að 55% útskrifaðra eru í háskóla eða hafa lokið háskólanámi.

Rekstrarþættir:

Markmið 1 er að ljúka endurskoðun skólanámskrár skólans. Þessu markmiði hefur verið náð því endurskoðun skólanámskrár var lokið á haustönn 2019.

Markmið 2 er að rekstur skólans sé í jafnvægi. Rekstrarafgangur fyrir árið 2018 var rúmlega 42 milljónir og skólinn fékk hluta af því, tæpar 20 milljónir, yfirfært. Meirihluti rekstrarafgangsins hefur verið nýttur í nokkur þróunarverkefni og frá og með 2020 gerum við ráð fyrir að reksturinn verði í jafnvægi.

Nemendur

Nemendafjöldi á árinu 2019 var rúmlega 300 nemendur. Fjöldi nýnema sem sækja um FMOS beint eftir 10. bekk hefur staðið í stað á milli áranna 2018 og 2019, er rúmlega 60 nemendur. Aldursdreifing í skólanum hefur breyst töluvert á undanförnum árum, í þá átt að eldri nemendum fækkar frá því sem áður var og þeim yngri fjölgar. Þessi misserin er mynstrið þannig að fjórir yngstu árgangarnir eru fjölmennastir, en fáir nemendur úr öðrum árgöngum.

Nám

Boðið er upp á nám á 6 námsbrautum í skólanum, þ.e. stúdentsnám á félags- og hugvísindabraut, náttúruvísindabraut og opinni stúdentsbraut. Á opinni stúdentsbraut er val um fimm kjörsvið; almennt kjörsvið, listakjörsvið, hestakjörsvið, íþróttakjörsvið og handboltaakademíu. Til viðbótar er boðið upp á nám á tveimur framhaldsskólabrautum og sérnámsbraut. Framhaldsskólabraut I er ætluð nemendum sem eru óákveðnir með námsval og hin framhaldsskólabrautin sem við köllum framhaldsskólabrú er ætluð nemendum sem koma beint úr grunnskóla og eru með slakan árangur, annað hvort D í einkunn í tveimur til þremur kjarnagreinum eða með stjörnumerktar einkunnir. Sérnámsbraut er ætluð fyrir nemendur með fötlunargreiningu og er skipulögð sem 7 - 8 anna nám.

Námsframboðið er í samræmi við áherslur skóla og ráðuneytis og er nokkuð fjölbreytt.

Starfsmenn

Þrír stjórnendur eru í skólanum, skólameistari og aðstoðarskólameistari, báðir í 100% stöðu og áfangastjóri í 60% stöðu. Við skólann starfar deildarstjóri sérnámsbrautar í hlutastarfi. Einn náms- og starfsráðgjafi eru við skólann í 100% stöðu og einn sálfræðingur í 50% stöðu. Kennarar á haustönn voru 29 í 27 stöðugildum og aðrir starfsmenn 7 í 5 stöðugildum. Heildarstarfsmannafjöldi var því 41. Allir kennarar eru með kennsluréttindi og háskólamenntun í sinni kennslugrein og meirihluti þeirra með masterspróf.

Kennsluhættir skólans eru í aðalatriðum þannig að notaðar eru fjölbreyttar verkefnamiðaðar kennsluaðferðir og leiðsagnarmat, og stundataflan er brotin upp með verkefnatímum þar sem kennarar eru til taks og nemendur stjórna sjálfir í hvaða verkefnatíma þeir mæta. Kennsluaðferðirnar miða að því að nemendur séu virkir þátttakendur í námi sínu og tileinki sér námsefnið í gegnum verkefni sem þeir vinna.

Námsmatið er í góðum takti við kennsluaðferðirnar, þannig að úr verður leiðsagnarnám þar sem vinna nemenda er metin jafnóðum. Kjarninn í hugmyndinni er líka að nemendur fá tækifæri til að ræða námsefnið og verkefnin við kennarana sína og fá síðan umsagnir sem leiða þá áfram, bæði skriflegar og munnlegar. Kennsluaðferðirnar og leiðsagnarmatið hafa þróast mikið í skólanum á undanförnum árum og er orðið mjög samfléttað þannig að erfitt er að sjá hvar kennsluaðferðunum sleppir og leiðsagnarmatið tekur við.

Þess vegna notum við nú orðið hugtakið leiðsagnarnám þegar við lýsum náminu í skólanum.

 

Mosfellsbær, 5. maí 2020

Guðbjörg Aðalbergsdóttir, skólameistari

Valgarð Már Jakobsson, aðstoðarskólameistari