Ársskýrsla Framhaldsskólans í Mosfellsbæ fyrir 2018

Ársskýrslan var unnin af skólameistara og aðstoðarskólameistara í apríl 2019

Árangur af markmiðasetningu í stefnumiðaðri áætlun 2019-2021: Staða árangursmælikvarða.

Kjarnastarfsemi:

Markmið 1 er að brotthvarf minnki. Annar árangursmælikvarðinn gerði ráð fyrir að 72% af nýnemum innritaðist á annað skólaár. Niðurstaðan var sú að viðmiðinu var ekki náð og 63% nýnema innrituðust á annað skólaár.

Nemendur í FMOS útskrifast að meðaltali á 3,7 árum. Hinn árangursmælikvarðinn gerði ráð fyrir að 37% nemenda útskrifaðist á tilskildum tíma (3,7 árum). Niðurstaðan er sú að rúmlega 31% nemenda útskrifast á tilskildum tíma á árinu 2018.

Markmið 2 er að gæði náms á námsbrautum sé í samræmi við markmið málaflokks. Árangursmælikvarðinn var að árangur útskrifaðra nemenda í háskólum sé samanburðarhæfur við aðra framhaldsskóla. Við gerum ráð fyrir að 15% útskrifaðra nemenda hafi lokið háskólanámi 2018. Gerð var könnun meðal útskrifaðra veturinn 2018-2019 og þar kom fram að 55% útskrifaðra eru í háskóla eða hafa lokið háskólanámi, og þar af hafa tæp 9% lokið námi.

Rekstrarþættir:

Markmið 1 er að ljúka við endurskoðun skólanámskrár skólans á næstu tveimur árum. Mælikvarðinn gerði ráð fyrir að 75% kafla í skólanámskránni hefði verið endurskoðaðir á árinu 2018. Niðurstaðan er sú að vinnu við endurskoðun skólanámskrárinnar hefur miðað vel og búið að endurskoða þau 75% sem gert var ráð fyrir.

Markmið 2 er að rekstur skólans sé í jafnvægi. Niðurstaða rekstar 2018 er að hagnaður er töluverður og ástæður þess eru skýrðar í bréfi sem skólinn sendi til ráðuneytisins 26. febrúar og var ítrekað 3. apríl sl.

Nemendur

Nemendafjöldi á árinu 2018 var rúmlega 300 nemendur. Fjöldi nýnema sem sækja um FMOS beint eftir 10. bekk hefur staðið í stað á milli áranna 2017 og 2018, er rúmlega 60 nemendur. Aldursdreifing í skólanum hefur breyst töluvert á undanförnum árum, í þá átt að eldri nemendum fækkar frá því sem áður var og þeim yngri fjölgar. Þessi misserin er mynstrið þannig að fjórir yngstu árgangarnir eru fjölmennastir, en fáir nemendur úr öðrum árgöngum.

Nám

Boðið er upp á nám á 6 námsbrautum í skólanum, þ.e. stúdentsnám á félags- og hugvísindabraut, náttúruvísindabraut og opinni stúdentsbraut. Á opinni stúdentsbraut er val um fimm kjörsvið; almennt kjörsvið, listakjörvið, hestakjörsvið, íþróttakjörsvið, handboltaakademíu og hestakjörsvið. Til viðbótar er boðið upp á nám á tveimur framhaldsskólabrautum og sérnámsbraut. Framhaldsskólabraut I er ætluð nemendum sem eru óákveðnir með námsval og hin framhaldsskólabrautin sem við köllum framhaldsskólabrú er ætluð nemendum sem koma beint úr grunnskóla og eru með annað hvort D í einkunn í tveimur til þremur kjarnagreinum eða með stjörnumerktar einkunnir. Sérnámsbraut er ætluð fyrir nemendur með fötlunargreiningu og er skipulögð sem 7 - 8 anna nám.

Námsframboðið er í samræmi við áherslur skóla og ráðuneytis og er nokkuð fjölbreytt.

Starfsmenn

Tveir stjórnendur eru í skólanum, skólameistari og aðstoðarskólameistari, báðir í 100% stöðu. Við skólann starfar deildarstjóri sérnámsbrautar í hlutastarfi. Tveir námsráðgjafar eru við skólann í 160% stöðu til samans. Kennarar á haustönn voru 29 í 27 stöðugildum og aðrir starfsmenn 7 í 5 stöðugildum. Heildarstarfsmannafjöldi var því 41. Allir kennarar eru með kennsluréttindi og háskólamenntun í sinni kennslugrein og meirihluti þeirra með masterspróf.

Kennsluhættir

Kennsluhættir skólans eru í aðalatriðum þannig að notaðar eru fjölbreyttar verkefnamiðaðar kennsluaðferðir og leiðsagnarmat, og stundataflan er brotin upp með verkefnatímum þar sem kennarar eru til taks og nemendur stjórna sjálfir í hvaða verkefnatíma þeir mæta. Kennsluaðferðirnar miða að því að nemendur séu virkir þátttakendur í námi sínu og tileinki sér námsefnið í gegnum verkefni sem þeir vinna.

Námsmatið er í góðum takti við kennsluaðferðirnar, þannig að úr verður leiðsagnarnám þar sem vinna nemenda er metin jafnóðum. Kjarninn í hugmyndinni er líka að nemendur fá tækifæri til að ræða námsefnið og verkefnin við kennarana sína og fá síðan umsagnir sem leiða þá áfram, bæði skriflegar og munnlegar. Kennsluaðferðirnar og leiðsagnarmatið hafa þróast mikið í skólanum á undanförnum árum og er orðið mjög samfléttað þannig að erfitt er að sjá hvar kennsluaðferðunum sleppir og leiðsagnarmatið tekur við. Þess vegna notum við nú orðið hugtakið leiðsagnarnám þegar við lýsum náminu í skólanum.

 

Mosfellsbær, 8. apríl 2019

Guðbjörg Aðalbergsdóttir, skólameistari

Guðrún Guðjónsdóttir, aðstoðarskólameistari