Starfsmannastefna

Markmið og hlutverk
Við teljum að góður starfsandi og starfsumhverfi haldist í hendur við og styðji við meginmarkmið okkar sem er að skapa nemendum framúrskarandi aðstæður til náms. Framhaldsskólinn í Mosfellsbæ vill tryggja góð skilyrði til vinnu og náms þar sem bæði starfsmönnum og nemendum líður vel.
Við viljum að starfsmannahópurinn vinni sem ein heild í samræmi við stefnu og hugmyndafræði sem skólinn byggir á og þá skólamenningu sem ríkir innan skólans.
Við vinnum eftir lögum og reglugerðum sem gilda um framhaldsskólana.

Endurmenntun, fagleg stefna og þróunarstarf
Við viljum vera í fremstu röð í þróun kennsluaðferða og námsmats. Við leggjum okkur fram um að skapa hvetjandi umhverfi þar sem jákvæðni ríkir gagnvart þróunarstarfi. Við trúum á að framþróun eigi sér stað með því að þeir sem tilheyra skólasamfélaginu hafi frelsi til að prófa sig áfram og mistök séu til að læra af þeim.
Við hvetjum starfsfólk til þverfaglegrar samvinnu milli greina.
Við viljum sífellt bæta okkur í starfi með endurmenntun sem bæði styður við okkur sem fagfólk og hjálpar okkur við að byggja undir hugmyndafræði skólans.
Við tökum fagnandi á móti hvers kyns tækninýjungum og nýtum þær í kennslu.
Við leitumst við að halda uppi öflugri kennslufræðilegri umræðu bæði innan og utan skólans.

Vinnuaðstaða og starfsumhverfi
Starfsumhverfið einkennist af jákvæðum og uppbyggilegum samskiptum þar sem ríkir samvinna og stuðningur frá samstarfsfólki og stjórnendum.
Við bjóðum upp á umhverfi sem gerir starfsmönnum kleift að sinna starfi sínu á sem bestan hátt með frábærri aðstöðu til kennslu.
Skólinn er heilsueflandi framhaldsskóli sem vinnur samkvæmt manneldismarkmiðum heilbrigðisyfirvalda. Við leggjum áherslu á gott mötuneyti sem hefur upp á bjóða holla, bragðgóða og fjölbreytta fæðu.

Ráðningastefna og móttaka nýrra starfsmanna
Við viljum laða til okkar hæft starfsfólk. Við leitumst við að ráða fólk sem hefur áhuga á að vinna samkvæmt stefnu skólans og finnst eftirsóknarvert að tilheyra samheldnum hópi sem hefur mikinn metnað og ber hag nemenda fyrir brjósti.
Við leggjum áherslu á að starfsmenn fái strax í byrjun góða mynd af skólanum og þeirri hugmyndafræði sem skólinn vinnur eftir. Þeir fá markvissa handleiðslu þar sem þeim er kynnt hugmyndafræði skólans og er sagt frá handbók starfsmanna, ásamt starfslýsingum.
Ráðningar við skólann eru vel rökstuddar og skal trúnaðarmaður vera upplýstur ef ný staða losnar og fá aðgang að upplýsingum um ráðningakjör og umsækjendur. Við starfslok er unnið faglega og farið eftir starfsmannalögum.

Starfsandi
Við leggjum okkur fram við að skapa starfsanda sem einkennist af gleði og samheldni. Við sýnum hvert öðru stuðning og gagnkvæma virðingu.
Við viljum að félagslíf á vegum starfsmannafélagsins og skólans sé fjölbreytt og gott.

Launamál
Við viljum halda í hæft starfsfólk með eftirsóknarverðum starfsskilyrðum.
Framhaldsskólinn í Mosfellsbæ hefur innleitt jafnlaunakerfi, sem nær til allra starfsmanna skólans, og tengir saman jafnréttisáætlun, jafnlaunastefnu og starfsmannastefnu. Markmiðið er að starfsfólk óháð kyni njóti sömu launakjara fyrir sömu eða jafnverðmæt störf. Starfsfólki er raðað í launaflokka með gegnsæjum hætti. Til að svo sé tryggt liggja starfslýsingar fyrir og eru þær nýttar sem forsenda fyrir launaröðun samkvæmt gildandi kjara- og stofnanasamningum. Að jafnaði skal stofnanasamningur endurskoðaður á tveggja ára fresti.

Sveigjanleiki í starfi
Við leggjum áherslu á sveigjanleika og að það ríki samræmi á milli einkalífs og atvinnu.
Reynt er að koma til móts við óskir starfsmanna um sveigjanlegan vinnutíma eins og kostur er. Ef það verða breytingar á fjölskylduhögum starfsmanna gefst þeim kostur á breyttum vinnutíma eða starfshlutfalli.

Boðleiðir og samskipti
Við leitumst við að samskiptin á vinnustaðnum einkennist af heiðarleika og virðingu.
Við gætum jafnræðis og umburðarlyndis við skoðanaskipti þar sem allir hafa jöfn tækifæri til að hafa áhrif á umræðu og stefnumótun skólans.
Áhersla er lögð á að ágreiningsmál fari í réttan farveg og sanngirni gætt við úrlausn mála.
Við leggjum okkur fram um að upplýsingaflæði sé skilvirkt á milli starfsmanna, stjórnenda, nemenda og forráðamanna nemenda.
Aðgengi að öllum almennum upplýsingum um skólann og stefnu hans eru sýnilegar og aðgengilegar öllum.
Hlutverk og ábyrgð yfir- og millistjórnenda eru skýr og vel skilgreind.

Endurgjöf
Við leitumst við að hrósa fyrir vel unnin störf og halda góðum verkefnum eða hugmyndum á lofti innan og utan skólans. Formleg endurgjöf er regluleg í formi matsfunda eða kennslukannana. Stefnt er að því að haldin séu starfsmannasamtöl á milli skólameistara og starfsmanna annað hvert ár.

Samgöngumál
Stjórnendur leitast við að auðvelda starfsfólki að nota vistvæna ferðamáta til og frá vinnu. Starfsmenn sem nota vistvænan ferðamáta hafa kost á að fá samgöngustyrk í samræmi við samgöngustefnu skólans.

Öryggismál
Við viljum að starfsfólki líði vel og upplifi sig í öruggu umhverfi. Við sjáum til þess að allir innan skólans þekki viðbragðs- og rýmingaráætlun. Starfsmenn fá kennslu og leiðsögn frá umsjónarmanni fasteigna þar sem þeim er kynnt öryggiskerfi, umgengnisreglur og er bent á helstu flóttaleiðir og neyðarútganga.

Jafnrétti
Framhaldsskólinn í Mosfellsbæ leggur mikla áherslu á jafnréttismál og hefur sett sér jafnréttisáætlun.

Síðast breytt: 9. mars 2023