Kennsluhættir

Metnaðarfullt nám
Skólinn leggur áherslu á að bjóða nemendum metnaðarfullt nám við hæfi hvers og eins. Ætlast er til að nemendur sýni metnað, leggi sig fram og sinni náminu af alúð. Lögð er áhersla á að nemendur fái þá aðstoð og stuðning sem þeir þurfa og það sé þannig sameiginlegt markmið starfsmanna og nemenda að góður árangur náist.

Virkir nemendur og verkefnavinna
Nemendur eru virkir þátttakendur í námi sínu og öðlast nauðsynlega þekkingu og hæfni með þvi að vinna verkefni. Verkefnavinnan auðveldar nemendum að ná tökum á námsefninu, námið verður innihaldsríkara og efnið lærist betur.

Fjölbreyttar kennsluaðferðir og leiðsagnarmat
Notaðar eru fjölbreyttar verkefnamiðaðar kennsluaðferðir og námsmat sem er stöðugt í gangi og miðast við hugmyndir um leiðsagnarmat.

Dæmi um kennsluaðferðir og/eða námsmatsaðferðir:
Umræður, stuttmyndir, hlutverkaleikir, blaðaútgáfa einstaklingsverkefni og hópverkefni – munnleg eða skrifleg, dagbækur, leiðarbækur, ferilmöppur.

Leiðsagnarmat
Eitt markmið leiðsagnarmatsins er að gera nemendur meðvitaða um nám sitt og að nemendur taki ábyrgð á eigin námi. Námsumhverfið þarf að einkennast af trú á að árangur náist (culture of success) og sameiginlegt markmið nemenda og kennara er að bæta árangur. Í leiðsagnarmatinu er einnig markviss notkun á sjálfsmati og jafningjamati. Nemendur fá umsagnir frá kennurum um verkefni sín sem leiða nemandann áfram.

Sjálfstæðir nemendur
Kennsluhættirnir ýta undir sjálfstæði nemenda og auðvelda þeim að stjórna námshraða sínum með góðum stuðningi kennara og námsráðgjafa.

Stundatafla
Stundataflan er með föstum kennslustundum annars vegar og verkefnatímum hins vegar. Í föstu kennslustundunum fer námið fram undir verkstjórn kennara en í verkefnatímum stjórna nemendur sjálfir hvort þeir vinna sjálfstætt eða leita aðstoðar hjá kennurum og í hvaða námsgrein þeir leita aðstoðar.

Góð vinnuaðstaða og vinnudagurinn í skólanum
Áhersla er lögð á góða vinnuaðstöðu í skólanum, stefnt er að því að skóladagurinn verði sem næst því að vera heildarvinnudagur nemandans og að hann geti lokið verkefnavinnu sinni að mestu leyti áður en haldið er heim. Öll rými í skólanum eru vinnusvæði þar sem alls staðar er þráðlaust net og góðar aðstæður til að sinna náminu.

Upplýsingatæknin, gott skipulag og fagleg vinnubrögð
Upplýsingatæknin er nýtt til hins ítrasta í skólanum. Hún er nýtt til að auka fjölbreytni í kennsluháttum, til að auðvelda upplýsingaöflun og til að nemendur læri að nota efni sem aðgengilegt er á netinu á skynsamlegan og gagnrýninn hátt. Upplýsingatæknin hefur vinnusparnað í för með sér og ýtir undir gott skipulag og fagleg vinnubrögð, bæði hjá nemendum og kennurum. Fyrir utan efni í kennslubókum er allt námsefni í skólanum lagt fram í gegnum kennslukerfi Innu sem hefur það í för með sér að allar upplýsingar, áætlanir, verkefni, fyrirmæli og annað það sem kennarar vilja koma til nemenda er á vísum stað og alltaf aðgengilegt.

Upplýsingatækni og tölvur
Kennslufyrirkomulagið gerir kröfur um mikla tölvunotkun og þó að ekki sé krafa um að nemendur komi með eigin fartölvur í skólann er það ljóst að mun betra er að vera með sína eigin tölvu. Nauðsynlegt er að nemendur hafi aðgang að nettengdri tölvu heima.

Síðast breytt: 2. október 2020