Kynferðisleg áreitni og ofbeldi

Stefnuyfirlýsing
Starfsfólk og nemendur Framhaldsskólans í Mosfellsbæ líða ekki kynferðislega áreitni og kynferðislegt ofbeldi, það er hvorki liðið í samskiptum starfsfólks og nemenda, starfsfólks innbyrðis eða í samskiptum nemenda. Markmið reglna þessara er að tryggja að úrræði séu til staðar telji starfsmaður eða nemandi sig verða eða hafa orðið fyrir slíkum brotum. Taka ber allar tilkynningar um kynferðislega áreitni alvarlega og bregðast skal skjótt við.

Skilgreining
Með hugtakinu kynferðisleg áreitni er átt við hvers kyns ósanngjarna og/eða móðgandi kynferðislega hegðun sem er í óþökk og hefur áhrif á sjálfsvirðingu þess sem fyrir henni verður og er haldið áfram þrátt fyrir að gefið sé skýrt í skyn að hegðunin sé óvelkomin. Áreitnin getur verið líkamleg, orðbundin eða táknræn. Eitt tilvik getur talist kynferðisleg áreitni.

Með hugtakinu kynferðislegt ofbeldi er átt við brot gegn kynfrelsi einstaklings sem lýst eru refsiverð í XXII. kafla almennra hegningarlaga.

Ferli mála er lúta að kynferðislegu áreiti/kynferðislegu ofbeldi
Einstaklingur sem verður var við kynferðislega áreitni eða kynferðislegt ofbeldi er hvattur til þess að tilkynna það til umsjónarkennara, náms- og starfsráðgjafa eða skólastjórnenda eftir því sem hann/hún telur best.

Nemendur
Í framhaldi af tilkynningu um grun um brot af ofangreindu tagi fer eftirfarandi ferli í gang:

 • Umsjónarkennari, náms- og starfsráðgjafi og stjórnendur hittast og skipuleggja rannsókn málsins.
 • Kanna skal málið til hlítar meðal annars með því að ræða við aðila þess.
 • Skólayfirvöld skulu aðstoða þolanda við að leita að sérfræðiaðstoð meðferðaraðila með sérþekkingu á umræddum brotum. Ákveði þolandi að leita réttar síns munu skólastjórnendur vera honum til aðstoðar eftir föngum.
 • Haft er samband við forráðamenn sé nemandi undir 18 ára aldri og þeir hafðir með í ráðum.
 • Rætt er við þann/þá aðila sem hlut eiga að máli ásamt forráðamanni/-mönnum sé nemandi undir 18 ára aldri.
 • Ekki er aðhafst í málinu nema sá sem verður fyrir áreitni (og forráðamenn eftir því sem við á) sé samþykkur. Sé hins vegar um brot á landslögum verður máli vísað til lögreglu.
 • Þegar könnun máls er lokið eru niðurstöður kynntar þolanda og geranda.
 • Eftirfylgni er beitt með einstaklingum eða hóp eftir því sem við á.
 • Mæli lög ekki á annan veg er þeim sem vinna að málum innan skólans skylt að gæta þagmælsku um einstök mál.

Starfsfólk
Ef upp kemur grunur um kynferðislega áreitni eða kynferðislegt ofbeldi meðal starfsfólks skal tilkynna það til skólastjórnenda og/eða trúnaðarmanns. Í framhaldi af tilkynningu um grun um brot fer eftirfarandi ferli í gang:

 • Skólastjórnendur og/eða trúnaðarmaður skipuleggja rannsókn málsins.
 • Kanna skal málið til hlítar meðal annars með því að ræða við aðila þess og eftir atvikum samstarfsfólk. Skólayfirvöld skulu aðstoða þolanda við að leita að sérfræðiaðstoð meðferðaraðila með sérþekkingu á umræddum brotum.
 • Ákveði þolandi að leita réttar síns munu skólastjórnendur/trúnaðarmaður vera honum til aðstoðar eftir föngum.
 • Ekki er aðhafst í málinu nema þolandi sé samþykkur.
 • Þegar könnun máls er lokið eru niðurstöður kynntar þolanda og geranda.
 • Eftirfylgni er beitt með einstaklingum eða hóp eftir því sem við á.
 • Mæli lög ekki á annan veg er þeim sem vinna að málum innan skólans skylt að gæta þagmælsku um einstök mál.

Hér má finna viðauka um kynferðisbrot

Síðast breytt: 2. september 2022