Lög um Samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna (nr. 86/2021) tóku gildi 1. janúar 2022. Lögin eiga að tryggja nemendum undir 18 ára aldri og fjölskyldum þeirra aðgang að samþættri þjónustu eftir þörfum.
Til að óska eftir farsældarþjónustu hafa forráðamenn og/eða nemendur samband við tengilið skólans, Aðalstein Árnason, á netfangið adalsteinn@fmos.is
FARSÆLDARÞJÓNUSTA FMOS
Í framhaldsskólanum í Mosfellsbæ er okkur umhugað um nemendur okkar og vellíðan þeirra. Við leggjum okkur fram við að vera persónuleg og í góðum samskiptum við nemendur og foreldra þeirra. Við viljum að öllum líði vel og gangi vel í skólanum. Það er mikilvægt að nemendur fái stuðning til þess að blómstra á eigin forsendum. Stór hluti af því er þjónustumiðuð og fyrirbyggjandi nálgun til allra nemenda.
Teymi farsældarþjónustu FMOS er þáttur í því að koma til móts við og styðja nemendur sem á því þurfa að halda.
Teymi farsældarþjónustu
Markmið teymis farsældarþjónustu FMOS er að fjalla um sérstök úrræði nemenda sem þess þurfa vegna námslegra, félagslegra eða tilfinningalegra áskorana, fötlunar eða sjúkdóms sem hefur áhrif á námið. Teymið kemur einnig að gerð verkferla og stefnu skólans í tengslum við innleiðingu farsældarlaganna. Teymið leggur áherslu á að forvarnir séu hluti af daglegu starfi skólans og kemur að skipulagningu forvarnafræðslu fyrir nemendur og starfsfólk. Kennari eða aðrir starfsmenn geta vísað málum skriflega til tengiliðar farsældar eða annarra í teyminu.
Í teyminu sitja náms- og starfsráðgjafar, forvarnarfulltrúi, skólahjúkrunarfræðingur og einn stjórnandi. Tengiliður farsældar er formaður teymisins.
Skólinn starfar eftir hugmyndafræði leiðsagnarnáms og er farsæld, líðan og velferð nemenda í brennidepli þar sem nemendur og kennarar eru í stöðugu samtali um námið. Allir kennarar skólans eru með fagumsjón í sínum áföngum þar sem þeir fylgjast með námsgengi nemenda sinna og bregðast við eftir þörfum. Áfangar í framtíðarfærni eru í kjarna allra námsbrauta þar sem unnið er með fjölmarga þætti sem varða nám á framhaldsskólastigi, um kerfi skólans, menningu, velferð og skólasamfélagið.
Síðast uppfært 29. september 2025