Námsmat og einkunnir

Leiðsagnarnám (assessment for learning)
Í FMOS er stundum við leiðsagnarnám sem er ein af tegundum verkefnamiðaðs náms. Í leiðsagnarnámi er námsmat fléttað saman við kennslu. Ekki eru haldin stór skrifleg lokapróf, en nemendur eru metnir jafnóðum alla önnina með verkefnum hvers konar, t.d. skriflegum verkefnum, munnlegum verkerfnum, myndböndum og stuttum prófum. Eitt markmið leiðsagnarnámsins er að gera nemendur meðvitaða um nám sitt og að nemendur taki ábyrgð á eigin námi. Námsumhverfið þarf að einkennast af trú á að árangur náist (culture of success) og sameiginlegt markmið nemenda og kennara er að bæta árangur. Í leiðsagnarnáminu er einnig markviss notkun á sjálfsmati og jafningjamati.

Nemendur fá umsagnir frá kennurum um verkefni sín jafnt og þétt yfir önnina. Umsagnirnar leiða nemandann áfram og hjálpa honum að átta sig á stöðu sinni og hvar hann getur bætt sig.

Meira um leiðsagnarnám

Einkunnir
Lokaeinkunnir eru gefnar í heilum tölum frá 1-10. Í einstaka áföngum eru gefin einkunnin S (staðið). Einkunnina H fá þeir sem hætta í áfanga eftir að frestur til að segja sig úr áfanga er liðinn.

Lágmarkseinkunn til að ljúka áfanga er 5, þó er heimilt að útskrifa nemanda með einkunnina 4 ef um lokaáfanga er að ræða. Nemendur fá ekki einingar fyrir áfanga sem lokið er með einkunnina 4. Heimilt er að útskrifa nemendur með einkunnina 4 í tveimur áföngum ef aðrar einingar koma á móti.

Miðannarmat
Nemendur fá miðannarmat í hverjum áfanga um það bil á miðri önn. Kennarar fá einn vinnudag til að skrá miðannarmat.
Einkunnir í miðannarmati eru gefnar í bókstöfum;

G = Frammistaða þín er góð
M = Frammistaða þín er í meðallagi
R = Frammistaða þín er óásættanleg.

Mikilvægt er að a.m.k. 35-40% af verkefnum áfangans sé lokið fyrir miðannarmat.

Verkefnaskil í endurteknum áfanga
Ef nemandi endurtekur áfanga, kemur til greina að hann fái að skila áður unnu verkefni í samráði við kennara.

Misferli í verkefnavinnu eða prófum
Verði nemandi uppvís að misferli í verkefnavinnu eða prófum er verkefnið ógilt og athugasemd skráð í Innu. Sama gildir ef nemendur afrita verkefni hver frá öðrum, þá eru verkefni beggja/allra ógild og athugasemdir skráðar í Innu. Frekari brotum verður vísað til skólameistara. Ítrekuð brot geta leitt til brottrekstrar úr skólanum.

Fall í áfanga á lokaönn
Nemandi sem fær 4 í einkunn í einum áfanga á lokaönn, sem veldur því að hann nær ekki að útskrifast, fær tækifæri til að vinna endurmatsverkefni sem kennari áfangans leggur fyrir. Vinnan fer fram að hluta til í skólanum undir umsjón kennara og snýr að aðaláhersluatriðum áfangans. Miðað er við að vinnan við verkefnið taki tvo daga. Skili nemandi verkefninu á fullnægjandi hátt telst áfanganum lokið.

 

Síðast breytt: 8. febrúar 2021