Fundargerðir skólanefndar 2021-2022

Dags: 02.05.2022
Fundarstaður: FMOS
Mættir: Guðbjörg Aðalbergsdóttir, Guðrún Guðjónsdóttir, Inga Þóra Ingadóttir Kolbrún Reinholdsdóttir, Sigríður Johnsen, Svanhildur Svavarsdóttir.


Dagskrá:
1. Fjármál
2. Ráðstefna 25. febrúar
3. Innri mál: Framhaldsskólabrú, nemendafjöldi
4. Útskrift 25. Maí
5. Önnur mál


1. Fjármál
Guðbjörg segir góðar fréttir af fjármálunum miðað við þrjá fyrstu mánuði ársins. Það er líklegt að yfirvinna verði minni á haustönn en verið hefur þannig að framhaldið lítur ágætlega út.

2. Ráðstefna 25. febrúar
Guðbjörg segir frá vel heppnaðri ráðstefnu um leiðsagnarnám sem haldin var í skólanum þann 25. febrúar. 4 kennarar skólans áttu hugmyndina og sáu um undirbúning og framkvæmd ráðstefnunnar. Þátttaka var mjög góð eða á annað hundrað manns, sumir reyndar á Teams þar sem veðrið setti strik í reikninginn. Sigríður spyr hvort nemendur hafi eitthvað komið að málinu, svo var ekki en vissulega hugmynd þegar ráðstefnan verður haldin aftur.

3. Innri mál
Framhaldsskólabrú – nú hefur Framhaldsskólabrúin verið í gangi í 5 ár og eftir miklar vangaveltur og upplýsingaöflun höfum við ákveðið að hætta með Brúnna. Niðurstöður athugana sýna okkur að fáir nemendur skila sér í áframhaldandi nám innan skólans og það er mat nemenda að vera þeirra á Brúnni tefji fyrir þeim og þeir upplifa sig ekki sem „alvöru“ nemendur. Tveir kennarar skólans eru með nýtt þróunarverkefni í undirbúningi þar sem stefnt er að því að koma á samstarfi við grunnskólana varðandi þennan nemendahóp. Það sem við ætlum að gera næsta haust fyrir hópinn er að skipuleggja undirbúningshópana með ákveðnum sveigjanleika þar sem hægt verður að ljúka mismunandi fjölda eininga í undirbúningsáföngum allt eftir getu hvers og eins.

4. Útskrift 25. maí
Útskrift verður með hefðbundnum hætti kl. 14 þann 25. Maí og kaffi á eftir fyrir starfsfólk og skólanefnd.

5. Önnur mál
a) Guðbjörg segir frá hugmynd um breytingar á stjórnuninni, það er mörg verkefni sem hafa bæst við undanfarið og því ákveðið að bæta við starfi verkefnastjóra.

Fundi slitið kl. 18:30
Fundargerð skrifaði Guðrún Guðjónsdóttir

 

Dags: 17.1.2022 kl. 17:15
Fundarstaður: FMOS

Mættir: Anna Sigríður Guðnadóttir, Guðrún Guðjónsdóttir, Halla Karen Kristjánsdóttir, Inga Þóra Ingadóttir, Kolbrún Reinholdsdóttir, Sigmar Vilhjálmsson, Sigríður Johnsen og Svanhildur Svavarsdóttir.


Dagskrá:
1. Breytingar í skólanefnd
2. Innritun og nemendafjöldi á vorönn 2022
3. Fjármál – fjárframlög ársins og staða
4. Önnur mál


1. Breytingar í skólanefnd
Guðrún bauð nefndina velkomna. Kynnti nýja meðlimi skólanefndar: Sigmar, Halla Karen og Anna Sigríður aðalmenn, varamenn eru Gunnar Birgisson, Hanna Símonardóttir og Leifur Ingi Eysteinsson (án tilnefningar), Harpa Lilja Júníusdóttir og Sveinn Óskar Sigurðsson (skv. tilnefningu). Guðrún stakk upp á að Sigríður Johnsen verði áfram formaður út vorönn 2022 og síðan yrði kosið fyrir haustið. Tillagan samþykkt. Fundir eru oftast 2-3 á önn. Farið yfir hlutverk skólanefndar sem er að vera ráðgefandi og að vera skólanum til halds og trausts. Fundarboð er sent út ásamt dagskrá. Eftir fund er fundargerðin send á nefndina og ef engin viðbrögð verða við henni þá er litið á að hún sé samþykkt og sett á vef FMOS.


2. Innritun og nemendafjöldi á vorönn 2022
Í desember voru 20 nemendur útskrifaðir. Útskriftarhátíð var haldin í húsinu, gestir fóru í hraðpróf. Innrituðum 29 nýja nemendur í nóvember sem er færri en oft áður. Mest höfum við verið með 470 nemendur, haustið 2014 þá nýflutt í húsið. Umræður um ástæður fækkunar, vangaveltur um hvort þriggja anna kerfið í MS og FG togi marga til sín, gott félagslíf hefur mikið aðdráttarafl. Spurt um hvort FMOS eigi sér vinaskóla. Það er þá helst Akranes og Borgarnes, höfum haldið ball með þeim. Einnig með BHS og Tækniskólanum. Sagt frá vinaskólasambandi á milli Egilsstaða og Sauðárkróks. Nemendur fóru í heimsóknir sín á milli, kepptu í íþróttum og dagurinn endaði með balli. Mjög vinsælt og vel heppnað.
Spurt um aldursbilið í skólanum. Hér eru 2005, 2004, 2003 árgangarnir langfjölmennastir. Rúmlega 50% nemenda er úr Mosó, 20% úr Grafarvogi og Grafarholti.
Helstu breytingar í starfsmannamálum eru að tveir kennarar hættu um áramótin og ritari skólans minnkaði við sig vinnu og er nú í 50% stöðu.

3. Fjármál – fjárframlög ársins og staða
Ekki búið að gera upp síðasta ár endanlega en svo virðist sem árinu verði lokað með u.þ.b. 27 millj. kr. tapi. Þetta er aðallega vegna viðbótar í starfsmannahaldi (starfslokasamningur og veikindaleyfi). Lækkun varð í fjárframlögum til skólans og ársnemendum hefur fækkað.
Spurt um hvað hver nemandi kostar. Það er u.þ.b. 2 millj. kr. en mismunandi á milli skóla. Spurt hvort FMOS sé með eitthvert plan til sparnaðar. Við höfum áður verið í þessari stöðu og þá þurftum við að gera ýmsar breytingar t.d. hættum að reka mötuneytið sjálf (útboð) og fækkuðum kennurum. 90% af fjármagni skólans fer í laun og húsaleigu.
Spurt var hvort allir kennarar nái 100% stöðu. Flestir eru í fullu starfi, en nokkrir í hlutastarfi.
Erum að velta fyrir okkur að fara að rukka fyrir alls konar þjónustu sem við veitum en erum ekki að taka neitt fyrir, t.d. að prenta út stúdentsskírteinin aftur, þýðingar á ensku o.þ.h.


4. Önnur mál
Umræður um Gettu betur þar sem nemandi úr öðrum skóla svindlaði sér inn í lið FMOS á fimmtudaginn var. Málið er í vinnslu.
Sagt var frá hugmyndinni um að birta föstudagspistla á vef skólans og samfélagsmiðlum. Viðstöddum boðið að senda inn pistla til birtingar.
Umræður um hvort skólinn megi sækja til fyrirtækja t.d. í Mosfellsbæ eftir stuðningi. Umræður um hollvinafélög annarra skóla.

Fundi slitið kl. 18:30
Fundargerð skrifaði Inga Þóra Ingadóttir

 

Dags: 04.10.2021

Fundarstaður: FMOS

Mættir: Guðbjörg Aðalbergsdóttir, Guðrún Guðjónsdóttir, Inga Þóra Ingadóttir, Kolbrún Reinholdsdóttir, Mikael Rafn Línberg Steingrímsson, Sigríður Johnsen, Svanhildur Svavarsdóttir

Dagskrá:

  1. Kosning formanns
  2. Innritun á haustönn
  3. Nýir starfsmenn
  4. Fjármál
  5. Önnur mál

 

1. Kosning formanns

Sigríður Johnsen gefur áfram kost á sér sem formaður og er því formaður skólanefndar veturinn 2021-2022.

2. Innritun á haustönn

Þegar þrjár vikur voru liðnar af önninni var nemendafjöldinn 328. Nemendur eru heldur færri en undanfarnar annir, skýrist aðallega af færri eldri nemendum sem sóttu um á haustönn.

3. Nýir starfsmenn

Loftur stærðfræðikennari er í launalausu leyfi og Þórunn Stella Hermannsdóttir var ráðin til að leysa hann af.

Aðalsteinn Árnason náms- og starfsráðgjafi sem leysti Svanhildi af í leyfi á síðasta skólaári var ráðinn sem stuðningsfulltrúi/leiðbeinandi á sérnámsbraut og að hluta til í námsráðgjöf ásamt öðrum verkefnum. Gunna Lísa sem hefur áður starfað hjá okkur sem ritari og stuðningsfulltrúi er komin aftur sem stuðningsfulltrúi á sérnámsbraut.

4. Fjármál

Árið í fyrra endaði í 27 milljónum í mínus – í stóra samhenginu er það ekki svo há tala. Skýringin er fyrst og fremst launakostnaður. Fyrstu átta mánuðir þessa árs koma út í 10 milljónum í plús. Næstu fréttir af fjármálum verða þegar fjárlagafrumvarpið verður kynnt.

5. Önnur mál

a) Umræður um fækkun nemenda og ástæður fækkunar. Eins og kom fram í lið tvö liggur fækkunin í eldri nemendum.

b) Upplýsingar um sjálfsmatshóp – rýnihópar nemenda eru aftur komnir af stað og nemendur eru mjög jákvæðir í garð skólans; þeir eru ánægðir með húsnæðið, starfsfólkið, þjónustuna o.fl.

c) Umræður um mötuneyti skólans – almenn ánægja með mötuneytið bæði hjá nemendum og starfsfólki. Ekki hefur tekist að reka mötuneytið án beinna framlaga frá skólanum og skólameistarar í öðrum skólum segja svipaða sögu.

d) Upplýst um alvarlega kvörtun sem barst frá nemanda vegna samskipta við kennara.

Fundi slitið kl. 18:40
Fundargerð skrifaði Guðrún Guðjónsdóttir