Hugmyndafræði FMOS

Hlutverk og stefna skólans er m.a.:

  • að stuðla að alhliða þroska allra nemenda og virkri þátttöku þeirra í lýðræðisþjóðfélagi með því að bjóða hverjum nemanda nám við hæfi,
  • að búa nemendur undir þátttöku í atvinnulífinu og frekara nám,
  • að leitast við að efla færni nemenda í íslensku máli, bæði töluðu og rituðu,
  • að efla siðferðisvitund, ábyrgðarkennd, víðsýni, frumkvæði, sjálfstraust og umburðarlyndi nemenda,
  • að þjálfa þá í öguðum og sjálfstæðum vinnubrögðum, jafnrétti og gagnrýninni hugsun,
  • að kenna þeim að njóta menningarlegra verðmæta og hvetja til þekkingarleitar,
  • að sinna miðlun þekkingar og þjálfun nemenda þannig að þeir öðlist færni til að gegna sérhæfðum störfum og hafi forsendur til að sækja sér frekari menntun.

Skólinn kennir sig við auðlindir og umhverfi í víðum skilningi og þær áherslur eru samfléttaðar við skólastarfið. Þar er átt jafnt við auðlindir í náttúrunni sem og mannauð með áherslu á lýðheilsu og menningarlegar auðlindir. Umhverfi skólans er lifandi þáttur í skólastarfinu þar sem hugað er m.a. að náttúrufræði umhverfisins, virðingu fyrir umhverfinu og hvernig njóta má umhverfisins og nýta á skynsamlegan hátt.

Skólinn leggur áherslu á að bjóða nemendum metnaðarfullt nám við hæfi hvers og eins, á stúdentsbrautum, framhaldsskólabraut og sérnámsbraut.

Hugmyndafræði og kennsluhættir skólans einkennast af því að nemendur eru virkir þátttakendur í eigin námi, öðlast sjálfstæði og stjórna námshraða sínum undir leiðsögn kennara og náms- og starfsráðgjafa. Fjölbreyttar verkefnamiðaðar kennsluaðferðir og námsmat sem er stöðugt í gangi og miðast við hugmyndir um leiðsagnarnám eru sérkenni skólans.

Upplýsingatæknin er notuð til að auka fjölbreytni í skólastarfinu og fyrir utan námsefni í kennslubókum er allt námsefni, áætlanir og upplýsingar aðgengilegt í gegnum kennslukerfi Innu. 

Kennsluhættir eru fjölbreyttir og námið fer fram undir verkstjórn kennara annars vegar í kennslustundum í stundatöflu og hins vegar í sérstökum verkefnatímum sem eru í stundatöflum nemenda daglega. Nemendur velja þannig hvort þeir nýta verkefnatímann til að vinna sjálfstætt eða leita aðstoðar hjá kennurum sem eru til staðar eftir ákveðnu skipulagi. Góð vinnuaðstaða er í skólanum og stefnt er að því að skóladagurinn sé sem næst því að vera heildarvinnudagur nemandans og að hann geti lokið verkefnavinnu sinni að mestu leyti áður en haldið er heim.

NFFMOS er nemendafélag skólans og er megin markmið þess að byggja upp öflugt félagslíf nemenda þar sem allir nemendur geta fundið eitthvað við sitt hæfi.

Framhaldsskólinn í Mosfellsbæ leggur áherslu á að vera í góðum tengslum við umhverfi sitt, bæði hvað varðar listir og menningu, íþróttir og lýðheilsu og annað það sem einkennir mannlíf í Mosfellsbæ.

Síðast breytt: 12. apríl 2021