Námsbrautin er ætluð nemendum af erlendum uppruna. Nemendur með annað móðurmál en íslensku hafa ólíkan bakgrunn hvað varðar nám, menningu og tungumál. Þeir hafa mismikla undirstöðu í eigin tungumáli, læsi og námi og eru því misjafnlega undirbúnir að takast á við nýtt tungumál í nýju umhverfi. Þeir hafa einnig verið mislengi á Íslandi og fengið ólík tækifæri til að kynnast íslenskri tungu. Námsgreinin íslenska sem annað mál er því ekki einungis tungumálakennsla. Saman fara markmið þar sem leitast er við að þjálfa nemendur í íslensku máli, sem og menningarfærni, og með því stuðla að félagslegri vellíðan nemandans. Þau fela í sér að nýja tungumálið sé lykill að íslensku samfélagi, íslensku skólastarfi, íslensku atvinnuumhverfi og brúi ólíka menningarheima.
Með námi á brautinni er stefnt að því að nemendur verði sem best í stakk búnir til að taka virkan þátt í íslensku, lýðræðislegu þjóðfélagi. Því er lögð áhersla á að námsþættirnir snerti persónulega færni, félagslega færni og að lokum starfsfærni eftir því sem framast er unnt. Brautin veitir ekki eiginleg réttindi, en með námi á brautinni er nemendum gert kleift að auka möguleika sína til náms og starfa í íslensku samfélagi. Eitt af lokamarkmiðum námsins er að opna möguleika nemenda á frekara námi við íslenska framhaldsskóla.
Brautin í námskrárgrunni
1) FRAM er áfangi þar sem unnið er með framtíðarfærni s.s. tölvufærni, vinnulag, samskipti, fjármálalæsi og gagnrýna hugsun.
Síðast breytt: 12. júní 2024