Fundargerðir skólanefndar 2019-2020

Nýjustu fundargerðir skólaársins eru efstar á síðunni en þær elstu neðstar.

Dags: 14.10.2019

Fundarstaður: FMOS

Mættir: Skólanefndarfulltrúar: Guðbjörg Aðalbergsdóttir, Elísabet S. Ólafsdóttir, Unnur Sif Hjartardóttir, Mikael Rafn Línberg Steingrímsson, Sigríður Johnsen, Inga Þóra Ingadóttir, Valgarð Már Jakobsson

Áheyrnafulltrúar: Helga Jóhannesdóttir fulltrúi kennara, Hafrún Ósk fulltrúi foreldra og Alexandra Björg Vilhjálmsdóttir og Eva Dögg Árnadóttir fulltrúar nemenda.

Dagskrá:

  1. Kosning formanns skólanefndar
  2. Innritun
  3. Nýir starfsmenn
  4. Fjármál
  5. Önnur mál

Guðbjörg bauð fundarmenn velkomna og bað fólk um að kynna sig enda nokkur ný andlit í hópnum.

1. Kosning formanns

Kosningu formanns var færð til í dagskrá þar til fleiri nefndarmenn mættu á fundinn. Því var þessi liður kláraður eftir umfjöllun Guðbjargar um innritun. Á fundinum tilnefndi Elísabet, Sigríði Johnsen sem nýjan formann og var hún einróma kosin formaður skólanefndar.

2. Innritun

Guðbjörg fór yfir tölulegar upplýsingar um innritun á haustönn og dreifingu á námsbrautir. Fjöldi brauta útskýrist á því að sumir nemendur eru á gömlum brautum. Guðbjörg útskýrði mismunandi áherslur of verkefni sem blasa við í mismunandi kjörsviðum opnu brautarinnar. Farið var yfir árgangaskiptingu í nemendahópnum. Að endingu var farið yfir tölur um hvaðan nemendur koma.

3. Nýir starfsmenn

Guðbjörg fór yfir það sem var að frétta af breytingum í starfsliði.

Fyrst var áréttað um breytingar í stjórnendateyminu en Valgarð Már Jakobsson leysir Guðrúnu Guðjónsdóttur af í starfi aðstoðarskólameistara nú í vetur og Inga Þóra Ingadóttir kemur inn í stjórnendateymið í nýrri stöðu áfangastjóra.

Tveir nýir starfsmenn tóku til starfa í mötuneyti samfara breytingu á rekstri mötuneytisins. Aðeins voru rædd góð áhrif þess, að taka aftur yfir rekstur mötuneytisins, á skólabrag.

Breyting var í starfsliði sérnámsbrautarinnar þar sem tveir nýir sérkennarar, Edda Einarsdóttir og Elísa Davíðsdóttir, voru ráðnir, en báðar eru mjög reyndir sérnámsbrautarkennarar.

Á hestabraut leysa Ragnheiður Þorvaldsdóttir og Hrafnhildur Helga Guðmundsdóttir, Karen Woodrow af vegna barnsburðar.

Í stærðfræðikennslu var Jónas Örn Helgason ráðinn inn í afleysingu fyrir Valgarð.

Sigríður benti á að þetta væru töluverðar breytingar miðað við undanfarin ár en stærsti hlutinn skýrist af nýjum störfum og afleysingum.

4. Fjármál

Árið 2018 skilaði skólinn hagnaði uppá um það bil 52 milljónir vegna breytinga í reiknilíkani til að styðja við nemendahóp með bágan undirbúning úr grunnskóla. Hluti af þeirri fjárhæð fór í að stofna Framhaldsskólabrúna. Næsta verkefni var að styðja við þann hóp sem var ekki alveg jafn illa staddur og í því tilliti var ákveðið að hafa tvo kennara í undirbúningshópum í stærðfræði, ensku og íslensku. Við höfum verið í svolitlu óvissuástandi út af þessum peningum en við vonumst til að fá alla vega að halda helming af rekstrarafganginum til að standa straum af auknum kostnaði. Þetta á bæði við reksturinn sem er nú dýrari vegna áðurgreindra verkefna en líka vegna þess að við höfum verið að halda aftur af okkur í kaupa á búnaði. Elísabet kom með fyrirspurn um það hvort ekki kæmi meira fé með nýjum nemendum á sérnámsbraut og Guðbjörg vísaði í reiknireglur fyrir nemendur með fötlunargreiningu þar sem fjárhæðir sem fylgja nemendum eru beintengdir við greiningu. Með öðrum orðum kemur þannig hærra fjárframlag með nemendur sem þurfa mikla aðstoð eins og þessir nemendur sem voru að koma inn nú.

Töluverðar umræður voru um gildi náms á 21. Öldinni og hlutverk skólans í að koma til móts við alla nemendur skólans, líka afburðarnemendur. Til að mynda hafa kennarar skólans verið mjög duglegir að bjóða uppá valáfanga sem eru í takt við tímann og samfélagsumræðu.

5. Önnur mál

Mikael spurði um stöðuna á hestabrautinni en hún hefur tekið verulega við sér aftur.

Sigríður spurði um námsráðgjafa en nú er einn náms- og starfsráðgjafi í 100% starfi en hér áður var ein og hálf staða. Hluti skýrist af því að verkefni hafa færst yfir til áfangastjóra en þar að auki er nú 50% staða sálfræðings við skólans og er þjónustan vel nýtt.

Guðbjörg fór yfir þau verkefni sem hvíla á stjórninni þessa önn, þar á meðal framkvæmd jafnlaunavottunnar. Niðurstöður þeirrar vinnu verða kynntar opinberlega. Einnig er verið að taka skjalavistunarkerfið GoPro í gagnið en það krefst mikillar yfirlegu í byrjun. Auk þessa er Menntamálastofnun að framkvæma ytra mat á skólastarfinu í FMOS í enda októbermánaðar. Þetta er reglubundið mat sem allir skólar ganga í gegnum og tekur til allra þátta skólastarfsins.

Mikael spurði um stöðuna á nemendafélaginu og Alexandra og Eva fóru yfir það sem gert hefur verið undanfarið. Guðbjörg og Valgarð fóru yfir það að virknin á nemendafélaginu er með besta móti nú.

Fundargerð skrifaði Valgarð Már Jakobsson

 

Dags: 2.12.2019

Fundarstaður: FMOS

Mættir: Skólanefndarfulltrúar: Sigríður Johnsen formaður, Guðbjörg Aðalbergsdóttir, Elísabet S. Ólafsdóttir, Inga Þóra Ingadóttir, Kolbrún Reinholdsdóttir, Unnur Sif Hjartardóttir og Valgarð Már Jakobsson

Áheyrnafulltrúar: Helga Jóhannesdóttir fulltrúi kennara og Auður Ólafsdóttir fulltrúi foreldra.

Dagskrá:

1. Fjármál

2. Fréttir af innra starfi – ytri úttekt, sjálfsmat

3. Útskrift

4. Önnur mál

Guðbjörg bauð fundarmenn velkomna.

1. Fjármál

Guðbjörg sagði frá stöðunni í rekstri skólans. Fjárhagsstaða skólans er í góðu jafnvægi en örlitlum halla verður mætt með tekjuafgangi frá árinu 2018. Enn á eftir að ákvarða hversu stóran hluta þess afgangs skilar sér til skólans þó vitað sé með vissu að það verði alla vega til að vega á móti hallanum. Framlag ríkissjóðs til skólans í ár lækkaði úr 588 miljónum í 580 milli ára þó miðað sé við sama fjölda af nemendum, eða 320. Langflestir liðir í rekstri eru svipaðir á milli ára.

Kolbrún spurði af hverju reksturinn sé í mínus. Guðbjörg svaraði því til að þar komi til nokkrir dýrir póstar svo sem afmælishátíðin og svo innleiðingu á nýju kerfi til að mæta nemendum með bágan undirbúning. Við erum búin að koma tveimur stórum verkefnum af stað með verr stadda nemendur. Annars vegar Framhaldsskólabrú sem áður hefur verið kynnt og svo nýju verkefni í undirbúningshópum þar sem nú eru tveir kennarar með hvern hóp í undirbúningsáföngum í ensku, íslensku og stærðfræði.

Spurt var að því hvernig fjármagn er áætlað í svona verkefni. Það fylgir meira fjármagn frá ríkinu með nemendum sem eru verr staddir námslega. Það er hins vegar alltaf auka kostnaður við að hrinda nýjum verkefnum af stað. Til dæmis eru kennurum sem taka þátt í þessu þróunarverkefni greitt sérstaklega fyrir að þróa og taka saman gögn um verkefnið.

Spurt var um kynjahlutfall í undirbúningsáföngum og Guðbjörg svaraði því til að það hallaði á stráka í þessu tilliti og þeir væru ívið fleiri en stelpurnar í þessum áföngum (innskot, samkvæmt útreikningum reynist hlutfall stráka af þeim sem eru í undirbúningshópum vera 57% á móti 43% stelpna.

2. Fréttir af innra starfi – ytri úttekt, sjálfsmat

Sagt var frá ytri úttekt á skólastarfi sem framkvæmt var af Menntamálastofnun í lok október. Vonast er til að niðurstöður verði væntanlegar öðru hvoru megin við áramót.

Valgarð sagði frá sjálfsmatsáætlun næstu þriggja ára en hana má sjá á heimasíðu skólans eða með því að smella á þennan hlekk, sjálfsmatsáætlun. Í sjálfsmatshópi sitja stjórnendur og eftir atvikum tveir til þrír kennarar. Hlutverk hópsins er að meta með kerfisbundnum hætti árangur og gæði skólastarfsins og er þannig hluti af gæðakerfi skólans. Meðal hlutverka sjálfsmatshóp er að skipuleggja matsfundi, þar sem stjórnendur ræða við nemendur um kennsluna inni í hópum áfanga. Fram fór heilmikil umræða um matsfundi og hvernig þeir styddu við lýðræðisvitund nemenda. Á næstu önn er ætlunin að stofna rýnihóp nemenda til þess að auka enn á breidd sjálfsmatsins.

Hluti af verkefnum sjálfsmatsnefndar er að yfirfara stefnur og áætlanir og á þessari haustönn höfum við verið að taka til endurskoðunar jafnréttisáætlun í samvinnu við jafnréttisfulltrúa skólans og áfallaáætlun sem er í endurskoðun hjá áfallaráði.

Að lokum var sagt frá því að á næstu vorönn verði hluta af fundartímum kennara varið í að ræða leiðsagnarnám með þeim hætti að einn til tveir kennarar kynni þær aðferðir sem þeir notast við í kennslu, fyrir samkennurum sínum og ræði við hópinn.

3. Útskrift

Útskrift haustannar verður haldin í sal skólans þann 18. desember klukkan 14:00. Áætlað er að 17 nemendur útskrifist. Skólanefnd er boðið í útskriftina og í veislu á eftir. Fyrirspurn kom um ástæðu þess að nokkrir dagar líði frá einkunnabirtingu til útskriftar en það er meðal annars til að gefa nemendum sem falla í einum áfanga möguleika á að taka upptökuverkefni sem getur teygst yfir tvo daga, en eðli málsins samkvæmt eru ekki upptökupróf í FMOS.

4. Önnur mál

Guðbjörg sagði frá beiðni sem barst frá foreldrum vegna skilafresta á verkefnum sem gjarnan hefur verið til miðnættis í mörgum fögum. Beðið var um að skilatími verði færður fram til þess að hafa betra áhrif á fjölskyldulíf og svefn nemenda. Þetta var tekið fyrir á kennarafundi og tóku kennarar vel í að hafa skilafresti ekki seinna en til 22:00. Unnur Sif benti á það að þetta hentaði illa þeim sem stunda íþróttir og koma seint heim. Þetta er mjög góð ábending og kom einmitt upp á umræddum kennarafundi. Það er auðvelt er fyrir kennara að koma til móts við þetta með því að loka ekki skilahólfum þótt skilafrestur væri liðinn. Þannig gætu nemendur gefið gildar skýringar á seinum skilum án þess að það hafi áhrif á námsmat.

Fram kom að ánægja væri með endurkomu Ingu Rósu, matreiðslumeistara okkar í mötuneyti skólans. Undir þetta var tekið og sagt frá því að skólinn hefði neyðst til að hætta rekstri mötuneytisins tímabundið vegna sparnaðarkröfu frá ríkinu og bjóða reksturinn út. Nú er hins vegar rýmra tækifæri til að bjóða þessa þjónustu aftur og Inga Rósa hafi því verið endurráðin til að stýra mötuneytinu þegar skólinn tók aftur við rekstrinum. Þetta hefur haft góð áhrif á skólabraginn og við erum þess fullviss að það skili sér í betri árangri nemenda.

Fundi slitið klukkan 18:15

Fundargerð skrifaði Valgarð Már Jakobsson

 

Dags: 10.02.2020 klukkan 17:15

Fundarstaður: FMOS

Mættir: Skólanefndarfulltrúar: Guðbjörg Aðalbergsdóttir, Kolbrún Reinholdsdóttir, Sigríður Johnsen og Valgarð Már Jakobsson

Áheyrnafulltrúar: Helga Jóhannesdóttir fulltrúi kennara, Auður Bára Ólafsdóttir fulltrúi foreldra.

Dagskrá:

1. Innritun á vorönn

Það eru núna 315 nemendur skráðir við skólann. Guðbjörg benti á að það sé oft erfitt að hitta á 320 markið sem er hámarkskvótinn okkar. Það voru hefðbundin annarskipti um áramót þar sem við sjáum örlítil flæði nemenda milli skóla. Tveir nýir nemendur byrjuðu á sérnámsbraut sem er óvenjulegt um áramót, en umræddir nemendur voru ekki í skóla á haustönn. Þrjú ungmenni sem voru hluti af kvótaflóttafólki sem kom til Mosfellsbæjar í september síðastliðnum taka hjá okkur tvo áfanga sem liður í því að koma þeim inn í menntaskólakerfið. Í kjölfarið var spjallað um það hvernig skólakerfið tekur á móti fólki með annað móðurmál en íslensku, nýbúadeild í Tækniskólanum og sóknarfæri sem liggja í því að virkja menntaða einstaklinga af erlendum uppruna í móðurmálskennslu fyrir þennan hóp.

2. Fjármál.

Guðbjörg fór yfir reksturinn 2019 og áætlun 2020

Áætlaður er mátulegur rekstrarafgangur af skólaárinu2020. Framlag ríkissjóðs er örlítið minna en á síðasta ári og þó að erfitt sé að sjá hvað veldur er ástæðan líkast til vegna samsetningar nemendahópsins. Meira er greitt með nemendum sem koma með lélegan námsárangur úr grunnskóla. Spurt var um hversu hátt framlag er með hverjum nemanda að meðaltali á ári en það er í kringum 1800 þúsund.

Sigríður spurðu um aðkomu jöfnunarsjóðs en fé frá honum kemur ekki inn í skólareiknilíkanið. Nemendur fá hins vegar styrk þaðan vegna búsetu og fer sú greiðsla fram í gegnum Lín. Fundarmenn ræddu nýútkomna skýrslu um.

Rætt var um skýrslu sem starfshópur um samræmd könnunarpróf, skipaður af mennta- og menningamálaráðherra var að senda frá sér. Skýrslan heitir „Framtíðarstefna um samræmt námsmat námsmat“ en gangi tillögur starfshópsins eftir gæti það mögulega breytt því hvernig nemendur eru metnir inn í framhaldsskóla. Hér er hlekkur á fréttina á vef MMS.

Sigríður spurði um hversu mikið sjálfræði framhaldsskólar hefðu við gerð fjárhagsáætlunar, en það sé mjög takmarkað í grunnskólum. Sjálfræði framhaldsskóla er töluvert meira en í grunnskólum. Þó gott eftirlit sé frá yfirvöldum varðandi reksturinn skipta þeir sér ekki beint að því hvernig fjárframlög til skólans eru notuð í einstaka þáttum. Rekstur skólans er sem sagt í góðu jafnvægi.

3. Fréttir af innra starfi.

Við bíðum enn eftir því að lokaskýrslan um ytra mat skólans sem framkvæmd var á síðustu önn, verði klár. Það sem við höfum fengið að sjá lofar þó góðu varðandi útkomu skólans í úttektinni.

Ein ábending frá úttektaraðilum var að áhugavert væri að fá nemendur til að koma meira að sjálfsmati skólans. Þetta er í takt sem við höfum sjálf rætt og nú á vorönn höfum við sett saman rýnihóp nemenda. Þessi hópur mun hitta sjálfsmatshóp skólans einu sinni í mánuði til að ræða alls konar mál sem viðkoma nemendum og vert er að endurmeta reglulega. Fyrsti fundur þessa hóps sem einungis er skipaður sjálfboðaliðum verður miðvikudaginn 12. febrúar. Nemendur fá eina einingu í námsferilinn fyrir þátttökuna en það gerði það líka að verkum að ekki þurfti að „veiða“ nemendur til að taka þátt. Á þessu fyrsta fundi viljum við heyra hvernig nemendur skilja hugtakið „leiðsagnarnám“ og hvort við séum að framkvæma það eins vel og við viljum.

4. Önnur mál

Valgarð sagði aðeins frá útskriftinni sem verður 27. maí. Við áætlum að brautskrá 27 nemendur í vor, 21 af stúdentsbrautum og 6 af sérnámsbraut. Athygli vekur að 7 þeirra sem eru að útskrifast af stúdentsbrautum hafa tekið undirbúningsáfanga í íslensku. Það hefur einkennt þá nemendur sem þurfa að taka undirbúningsáfanga, sérstaklega í íslensku, að þeim hættir mjög til að flosna úr námi. Hverjar ástæðurnar eru fyrir því að svo mörg þeirra eru að ná leiðarenda nú er hins vegar ekki hægt að fullyrða neitt um. Sú aukna þjónusta sem við höfum sett í undirbúningshópana með tveimur kennurum á hóp er til að mynda svo ný að enginn úr þessum útskriftarhópi fékk hana.

Auður Bára sagði „sögu úr heita pottinum“ af konu sem kenndi viðskiptafræði í Háskóla. Hún sagði að þeir nemendur sem koma úr FMOS getu ekki tekið próf. Hún velti því vöngum um hvort það þurfi að þjálfa þetta frekar í FMOS, til dæmis í sér áfanga. Í þessu tilliti vísuðum við til tveggja viðhorfskannanna þar sem hringt var í útskrifaða nemendur skólans. Niðurstöður þeirra kannanna segja aðra sögu en nemendur voru almennt sammála því að þeim kveið fyrsta prófið mjög en komust svo að því þegar í prófið koma að þjálfun þeirra í að vinna jafnt og þétt skilaði sér í góðum árangri í prófi og kvíðinn hvarf yfirleitt í kjölfarið. Við erum ekki enn komin með samanburðartölur úr háskólum þar sem við erum ekki enn komin með nógu marga nemendur í gegnum háskólakerfið til að tölur verði marktækar.

Ekki var fleira rætt og fundi slitið klukkan 18:17

Fundargerð skrifaði Valgarð Már Jakobsson