DANS3LT05 - Danmörk - menning og listir

lestur og menning ii, tjáning

Einingafjöldi: 5
Þrep: 3
Forkröfur: DANS2LT05
Í þessum áfanga verður farið yfir helstu atriði í danskri menningu, bæði í nútímalegu og sögulegu samhengi. Farið verður yfir tengsl Íslendinga við Danmörku í gegnum söguna og skoðað hvernig danskra áhrifa er að gæta í íslensku samfélagi. Farið verður yfir helstu staði í Kaupmannahöfn þar sem íslenskt áhrifafólk hefur dvalið við nám eða störf í gegnum árin, m.a. kynnast nemendur safni Árna Magnússonar. Nemendur verða einnig kynntir fyrir nokkrum áhugaverðum söfnum, t.d. Louisiana, Ny Carlsberg Glyptotek og Silkeborg Museum þar sem Tollundmaðurinn m.a. liggur. Námsefnið samanstendur af textum úr ýmsum áttum sem og kvikmyndum og heimildarmyndum. Verkefnin verða að mestu leyti hópavinna en jafnframt er lögð áhersla á að nemendur vinni sjálfstætt og beri sjálfir ábyrgð á skipulagi og úrlausn verkefna.

Þekkingarviðmið

 • danskri menningu, list og sögu
 • tengslum Íslendinga við Danmörku í sögulegu og menningarlegu samhengi
 • skyldleika tungumálsins við íslenskt mál
 • orðaforða sem gerir honum kleift að tileinka sér með góðu móti lesefni í áframhaldandi námi eða starfi
 • hvernig skrifa á skýran og vel uppbyggðan texta um flókið sérhæft efni, með áherslu á aðalatriði og geti þróað og rökstutt mismunandi sjónarmið og lokið textanum með viðeigandi niðurstöðu

Leikniviðmið

 • lesa sér til gagns og ánægju texta sem gera miklar kröfur til lesandans, ýmist hvað varðar orðaforða og uppbyggingu eða myndmál og stílbrögð
 • beita tungumálinu, bæði skriflega og munnlega, í mismunandi tilgangi, formlega og óformlega, með málfari við hæfi hvers tilefnis
 • flytja skýra, vel uppbyggða kynningu þar sem lögð er áhersla á meginþætti og atriði sem skipta máli
 • víkja frá fyrirfram undirbúnum texta áreynslulaust og geta brugðist við spurningum áheyrenda

Hæfnisviðmið

 • greina sögulegt, félagslegt, menningarlegt eða pólitískt samhengi í texta, s.s. í bókmenntaverkum og öðrum textum
 • tileinka sér efni ritaðs texta af ýmsu tagi og geta lagt gagnrýnið mat á hann
 • beita rithefðum sem við eiga í textasmíð, m.a. um inngang með efnisyrðingu, meginmál með afmörkuðum efnisgreinum og niðurlag
 • auka meðvitund um eigin færni í tungumálum og eigin leiðir til að tileinka sér málið
 • vinna úr ýmsum upplýsingaveitum og fella saman í eina heild samkvæmt þeim hefðum sem gilda um heimildavinnu
 • tjá tilfinningar, nota hugarflugið og beita stílbrögðum, t.d. myndmáli og líkingarmáli
Nánari upplýsingar á námskrá.is