Föstudagspistill

Skólasetning haustönn 2022
Skólasetning haustönn 2022

Velkomin til starfa á haustönn! Í vetur verður sent út fréttabréf á hverjum föstudegi þar sem farið verður yfir það sem helst er að frétta úr skólastarfinu.

Fyrsta vikan er nú að klárast og fer mjög vel af stað og vonandi gengur öllum vel að koma sér í gang. Önnin hófst á skólasetningu í matsalnum á miðvikudagsmorgun þar sem Guðbjörg skólameistari bauð nemendur velkomna til starfa.

Það eru nokkur atriði sem gott er að minnast á í upphafi annar. Töflubreytingum er lokið en hægt er að segja sig úr áfanga til 6. september. Eftir það hafa nemendur skuldbundið sig til að ljúka þeim áföngum sem þeir eru skráðir í.

Það hafa verið gerðar nokkrar breytingar á mætingarreglum FMOS og til dæmis verða nemendur skráðir úr áföngum um miðja önn séu þeir óvirkir. Sjá Reglur um mætingar og verkefnaskil á vef skólans.

Sálfræðingur skólans sem hefur verið hjá okkur undanfarna vetur er nú hætt en í staðinn erum við komin með hjúkrunarfræðing sem verður hjá okkur eftir hádegi alla miðvikudaga. Nemendur geta leitað til hennar Lilju Daggar með ýmis vandamál en skrifstofan hennar er þar sem Júlíana sálfræðingur var staðsett, við hliðina á Svanhildi námsráðgjafa. Hægt er að koma við hjá henni milli klukkan 13 og 15 á miðvikudögum en svo verður hægt að bóka tíma milli 15 og 16 með því að senda póst á lilja@fmos.is eða með því að bóka viðtalstíma í gegnum Innu. Þar er líka hægt að bóka viðtalstíma hjá náms-og starfsráðgjafa (Svanhildi og Alla) en Alli mun nota þessa sömu skrifstofu fyrir sín viðtöl.

Leiðbeiningar um hvernig hægt er að bóka tíma finna nemendur undir „Aðstoð“ á Innu. Þar má líka finna upplýsingar um fleiri gagnlega hluti. Endilega kíkið á það.

Mig langar líka að minna á að það eru fullt af gagnlegum upplýsingum á vef skólans, www.fmos.is . Þar eru upplýsingar um allt sem við kemur skipulagi skólastarfsins. Á vefnum er líka tengill á dagatal annar (ekki viljið þið lenda í því að mæta í skólann þegar það er frí), tengill á matseðil vikunnar og fleira og fleira.

Að lokum vil ég segja frá skemmtilegri ferð sem tveir kennarar skólans ásamt aðstoðarskólameistara fóru til Akureyrar á þriðjudag. Tilgangurinn var að kynna fyrir kennurum í Menntaskólanum á Akureyri það merkilega starf sem við vinnum hér og halda vinnustofur um leiðsagnarnám. Heimsóknin tókst mjög vel og ánægja var með okkar innlegg. Hér er tengill á frétt um heimsóknina á vef MA.

Hafið það sem allra best um helgina og ég minni á Menningarnótt Reykjavíkur á morgun.