Stefnuyfirlýsing í umhverfisfræði

Í umhverfisfræði í FMOS er lögð áhersla á umhverfismál í víðum skilningi. Áhersla er lögð á að efla gagnrýna hugsun og sjálfstæði í vinnubrögðum. Engar námsbækur eru í áföngunum.

Helstu námsþættir
Í UMHV2UN05 er áfanganum skipt í fjórar lotur og gefa nöfnin á lotunum hugmynd um efnislegar áherslur; 1) gróðurhúsaáhrif og loftslagsbreytingar, 2) sjálfbær þróun og sjálfbærir lifnaðarhættir, 3) auðlindir Íslands og 4) ein jörð, margir heimar (þar sem fjallað er um misskiptingu auðæfa eftir heimshlutum og hvaða áhrif sú misskipting hefur).

Í UMHV3ÍS05 er áhersla á umfjöllun um auðlindir Íslands. Fjallað er um helstu auðlindir Íslands, sérstöðu Íslands í orkumálum, sjálfbæra auðlindanýtingu og sjálfbæra þróun á Íslandi.

Í UMHV3US05 tvinna nemendur saman grunn sinn í umhverfismálum, náttúrufræðigreinum og stærðfæði. Nemendur greina gagnasöfn sem tengjast umhverfismálum og skipuleggja og framkvæma tilraunir.

Í öllum áföngum hafa nemendur að einhverju leyti val um hvaða efnisatriði þeir kafa dýpst í.

Kennsluaðferðir og námsmat
Í umhverfisfræði er áhersla á fjölbreytt verkefni sem nemendur vinna ýmist einir eða í hópum og byggist námsmat áfanganna að mestu eða öllu leyti á þessum verkefnum. Í sumum tilfellum hafa nemendur val um hvernig þeir skila verkefnunum af sér (skriflega, sem kynningu að myndbandi svo dæmi séu tekin) og er með því leitast við að leyfa hæfileikum hvers og eins að njóta sín sem best.

Annað
UMHV2UN05 er skylduáfangi fyrir nemendur allra námsbrauta. UMHV3ÍS05 og UMHV3US05 eru á kjörsviði fyrir náttúruvísindabraut og valáfangar fyrir aðrar brautir.

Grunnþættir menntunar fléttast sterkt inní kennsluna; sjálfbærni (allir áfangar), lýðræði (allir áfangar, m.a. með því að gefa nemendum val um hvaða viðfangsefni þeir kynna sér), sköpun (fjölbreytt verkefni í öllum áföngum), jafnrétti (sérstaklega UMHV2UN05, lota 4) og læsi (allir áfangar þar sem áhersla er á að nemendur kynni sér viðfangsefni á gagnrýninn hátt).

 

Síðast breytt: 25. janúar 2021