Stefnuyfirlýsing í spænsku

Áhersla er lögð á fjölbreytta og skapandi verkefnavinnu og að nemendur tjái sig sem mest á spænsku í töluðu og rituðu máli. Unnið er með fjölbreytt efni, meðal annars tónlist, myndbönd, leiki og ýmislegt efni af Netinu sem færir nemendur nær spænskum menningarheimi í þeim tilgangi að efla menningarlæsi þeirra. Nemendur bera ábyrgð á sínu eigin námi og sýna sjálfstæð vinnubrögð, frumkvæði og skapandi hugsun.


Helstu námsþættir

Í fyrsta áfanganum er áhersla lögð á að nemendur tileinki sér undirstöðuatriði tungumálsins. Nemendur byggja upp orðaforða og eru þjálfaðir markvisst í málfræði, hlustun, ritun, lestri og tjáningu. Markmiðið er að nemendur geti tjáð sig um sig sjálfa og sitt nánasta umhverfi.

Í öðrum áfanganum er byggt ofan á áður fengna kunnáttu. Unnið er að aukinni orðaforðaöflun og færni nemenda í málfræði, hlustun, ritun, lestri og tjáningu þar sem fléttað er inn í kennsluna menningu og sögu Spánar. Nemendur læra að sækja þjónustu verslana og veitingastaða, spyrja og vísa til vegar, staðsetja sig, lýsa ólíkum borgum, tjá sig um áhugamál sín, gefa og þiggja ráð og tjá sig um atburði í núliðinni tíð. Nemendur tjá sig munnlega í auknum mæli og textar verða smám saman þyngri.

Í þriðja áfanganum er lagt upp með að nemendur geti nýtt sér áður fengna kunnáttu til sjálfstæðari vinnubragða. Áfram er unnið að aukinni orðaforðaöflun, færni í málfræði, hlustun, ritun, lestri og tjáningu þar sem fléttað er inn í kennsluna menningu og sögu Rómönsku Ameríku. Nemendur tjá sig munnlega í auknum mæli og textar verða smám saman þyngri.

 

Kennsluaðferðir og námsmat

Í spænsku eru viðhafðar fjölbreyttar kennsluaðferðir í þeim tilgangi að nemendur verði meðvitaðir um mismunandi aðferðir við að tileinka sér tungumál. Verkefnin eru stór og smá. Lagt er upp með að minni verkefnin séu unnin sjálfstætt þó samvinna sé leyfileg á meðan stærri verkefni eru unnin í pörum eða í hópum. Ávallt er ljóst eftir hverju kennarinn leitar þegar verkefni eru lögð fyrir.

Lögð er áhersla á að nemendur geti fylgst vel með námsframvindu sinni og taki þannig ábyrgð á námi sínu. Námsmat fléttast inn í kennsluna og er að mestu í formi munnlegs leiðsagnarmats en í stærri verkefnum fá nemendur skriflega umsögn hjá kennara auk þess sem notast er við jafningjamat og sjálfsmat. Kennari leitast við að gefa uppbyggilegt námsmat til að efla sjálfstraust nemenda.

 

Síðast breytt: 27. september 2019