Stefnuyfirlýsing í sögu

Sögukennslan í FMOS byggir á því að nemendur þekki til ýmissa atburða og persóna í sögunni en ekki síst að þeir læri að vinna með söguna og heimildir. Einnig er reynt að gera söguna lifandi og nemendur geti tengt söguna við sig. Nemendur þurfa að geta notað viðurkenndar heimildir til að mynda sér rökstudda skoðun á sögunni í ræðu og riti.

Frá fyrsta áfanga læra nemendur að leita sér heimilda, meta þær og nýta í ýmis framsetningarform, t.d. ritgerðir, myndbönd og veggspjöld. Í seinni áföngum eiga nemendur að hafa náð fullum tökum á heimildavinnunni og geta myndað sér rökstudda skoðun á álitaefnum með hjálp heimildanna. Efni og aðferðir eru valdar með grunnþættina læsi, lýðræði og mannréttindi, jafnrétti og sköpun í huga.

Helstu námsþættir
Í áföngum á öðru þrepi er farið yfir söguna frá upphafi mannsins til nútímans. Megináherslan meðfram því er á heimildaleit og heimildanotkun. Nemendur þjálfast í vali á heimildum og læra að umgangast þær af virðingu. Reynt er að gera söguna lifandi með fjölbreyttri verkefnavinnu og er sérstök áhersla á skapandi verkefni.

Í áföngum á þriðja þrepi er áhersla á að dýpka sögunámið með ólíkum viðfangsefnum. Einnig eiga nemendur að hafa náð góðum tökum á heimildaleit og heimildanotkun. Nemendur eiga þar af leiðandi að geta unnið sjálfstætt að fræðilegum verkefnum þar sem þeir taka afstöðu til álitamála í námsefninu.

Kennsluaðferðir og námsmat
Notaðar eru fjölbreyttar kennsluaðferðir og námsmat. Í fyrstu áföngunum er áherslan á skapandi verkefni, hópverkefni og fræðilega vinnu. Dæmi um slík verkefni eru: myndbönd, veggspjöld, ritgerðir, einstaklings- og hópfyrirlestrar, vefsíður og ýmis konar smærri skrifleg verkefni. Í seinni áföngunum er meiri áhersla á fræðileg verkefni, umræður og hópavinnu. Sjálfstæði og ábyrgð nemenda eykst eftir því sem líður á námið og markviss notkun er á sjálfsmati og jafningjamati.

 

Síðast breytt: 27. september 2019