Stefnuyfirlýsing í sálfræði

Áherslur í kennslunni
Megináherslur kennslunnar er að vekja áhuga nemenda á greininni og kynna fyrir þeim ólík viðfangsefni sálfræðinnar. Í áföngunum er lögð áhersla á að nemendur skoði sálfræðina út frá eigin áhugasviði, taki afstöðu, velji sér viðfangsefni og skoði þau með aðferðum greinarinnar. Nemendur takast á við raunhæf verkefni, eins og tilraunir og vettvangsathuganir, bæði innan skólans og í nærumhverfi. Markmiðið er að nemendur tileinki sér vísindaleg vinnubrögð, byggi upp sterka sjálfsmynd og tileinki sér gagnrýnið viðhorf. Í kennslunni eru grunnþættirnir sköpun, læsi og heilbrigði í forgrunni. Nemendur eru hvattir til að sýna frumkvæði og sköpun við úrlausn verkefna. Lögð er áhersla á að nemendur þjálfist í að lesa og vinna með fræðilegan texta og heimildir á íslensku og ensku. Fjallað er um geðheilbrigði í tengslum við streitu, lífshamingjuna og geðsjúkdóma.

Helstu námsþættir
Í fyrsta áfanganum fá nemendur almenna kynningu á helstu aðferðum greinarinnar sem þeir nýta til að kynna sér ólíkar undirgreinar og stefnur sálfræðinnar. Í öðrum áföngum fá nemendur tækifæri til að takast á við áhugasvið sín og dýpka skilning sinn á mismunandi viðfangsefnum. Eftir því sem lengra er komið er lögð meiri áhersla á að nemendur tileinki sér gagnrýnið viðhorf gagnvart greininni og hæfni nemenda til að tileinka sér vísindaleg vinnubrögð.

Kennsluaðferðir og námsmat
Í kennslunni er lögð áhersla á fjölbreyttar kennsluaðferðir sem miða að því styðja nemandann við að tileinka sér efnið og að hann séu virkur í kennslustundinni. Dæmi um kennsluaðferðir eru umræður, vettvangsrannsóknir, tilraunir, sköpunarverkefni (leikþættir, spuni, söguaðferð) og myndbönd. Nemendur takast á við fjölbreytt verkefni sem þeir eru hvattir til að tengja við eigin reynslu bæði í formi hóp- og einstaklingsverkefna. Í verkefnavinnu er lögð mikil áhersla á að hver og einn nýti styrkleika sína. Námsmatið er samofið kennslunni þar sem notast er bæði við munnlegar og skriflegar umsagnir um verkefni og frammistöðu nemandans í náminu. Markmiðið með umsögnum er að vera leiðbeinandi og til stuðnings við vinnu nemandans.

 

Síðast breytt: 27. september 2019