Stefnuyfirlýsing í handverki og listsköpun

Þeir áfangar sem tilheyra handverki og listsköpun er ætlað að ýta undir ímyndunarafl og sköpunarhæfileika nemenda og vekja meðvitund þeirra um fagurfræði. Í þessum áföngum eru nemendur hvattir til að örva forvitni sína og áhuga á að leika sér með ýmsa möguleika í verkefnum sínum.

Verkefnin geta verið margvísleg og fara mest eftir óskum nemenda en undir handleiðslu kennara. Vinnubrögð í hvers konar listsköpun einkennast oftast af sköpunargleði, frumleika og örvun innsæis og því eru tímarnir oft frjálslegir þar sem nemendur fá tækifæri á að skiptast á skoðunum og þjálfa félagsfærni sína. Þessir áfangar ýta því oft undir jákvæð og skemmtileg samskipti. Kennslan er eingöngu verkleg og fer fram í tímum. Áhersla er lögð á sjálfstæð og vönduð vinnubrögð og lokafrágangur verkefna skiptir miklu máli. Engin heimavinna.

Helstu námsþættir
Fyrsta þreps áfangar: Í fyrsta þreps áföngum í handverki og listsköpun er áhersla lögð á að virkja sköpunargáfu nemenda og finna sjálfstæði þeirra í vinnu og efnisvali. Þeir eru þjálfaðir í að setja fram nýjar hugmyndir, meta þær og fylgja þeim eftir að fullunnu verki. Boðið er uppá áfanga þar sem eingöngu er unnið með náttúruefni af mismunandi tagi sem koma úr nærumhverfi Mosfellsbæjar (áhersla lögð á tálgun), áfanga þar sem unnið er með hin og þessi textílefni og verkefni byggjast á þrykkingu, litun, þæfingu, handsaumi o.fl. og einnig áfanga í skartgripagerð þar sem unnið er með hin ýmsu efni sem notuð eru í skartgripagerð og áhersla er lögð á perlur og vír.

Annars þreps áfangar: Notast er við sömu hugmyndir og í fyrsta þreps áföngum nema að núna bætist við aukin áhersla á frumkvæði og frjálsræði nemenda í verkefnavali og sjálfstæði þeirra í vinnu. Ætlast er til að nemendur fari dýpra í tækni og aðferðir í vinnu sinni og vali.

Kennsluaðferðir og námsmat
Þar sem kennslan er eingöngu verkleg er virkni í tímum mikilvæg og mæting skilyrði fyrir verkefnaskilum. Verkefnin eru í stórum dráttum ákveðin af kennara, hvort sem þau flokkast undir skreyti- eða nytjahönnun en nemendur fá mikið frjálsræði í endanlegri útkomu þeirra. Ætlast er til að nemendur þjálfist í gagnrýnni hugsun gagnvart eigin verkum og séu meðvitaðir um nám sitt á skapandi og persónulegan hátt.

Kennari viðheldur leiðsagnarmati í tímum og gefur umsögn fyrir verkefni og vinnu. Nemendur fá einnig tækifæri til að meta eigin verk og annarra nemenda (sjálfsmat og jafningjamat). Hugmyndabók fylgir áfanga og þar skrá nemendur hugmyndir sínar, hugsanir og skissur og skila henni til kennara í lok áfanga.

 

Síðast breytt: 27. september 2019