Stefnuyfirlýsing í félagsfræði

Í félagsfræði eru helstu áherslur þær að nemendur átti sig á samspili einstaklings og samfélags auk þess sem kenningar og aðferðafræði félagsfræðinnar eru kynntar. Almenn félagsfræði og mannfræði eru kennd á 2. þrepi. Aðrar sérhæfðar greinar félagsvísinda eru kenndar á 3. þrepi.

Helstu námsþættir
Í 2. þreps áföngum er lögð áhersla á almenna félagsfræði, uppbyggingu samfélagsins, tengsl einstaklings og umhverfis auk þess sem kennd er mannfræði.

Í 3. þreps áföngum eru sérhæfðari félagsgreinar teknar fyrir; kenningar og aðferðafræði, stjórnmálafræði, afbrotafræði, heilsufélagsfræði, þróunarfræði og kynjafræði.

Kennsluaðferðir
Kennsluhættir eru fjölbreyttir og miða að því að auka ábyrgð og virkni nemenda. Sérstök áhersla er lögð á umræður í kennslustundum og að nemendur þjálfist í að greina málefni líðandi stundar. Eftirfarandi grunnþáttum er veitt sérstök athygli: Lýðræði og mannréttindi, jafnrétti, heilbrigði og velferð auk menntunar til sjálfbærni.

Námsmat
Námsmatið er fjölbreytt og skiptist í tímaverkefni, skilaverkefni, próf, námsdagbók og ritgerðir. Fjölbreytt námsmat á sér stað með notkun leiðsagnarmats þar sem leitast er við að gefa nemendum gagnlegar umsagnir, einnig er notast við sjálfsmat og jafningjamat.

Lokamarkmið
Lokamarkmið náms á 3. þrepi í félagfræði er að nemendur hafi aflað sér haldbærar þekkingar og aukið skilnings sinn á félagsheiminum. Þeir hafi tileinkað sér ábyrg vinnubrögð, gagnrýna hugsun og helstu aðferðir félagsfræðinnar.

Annað
Félagsfræðin er góður grunnur fyrir virka þátttöku í borgaralegu samfélagi og undirbýr nemendur vel fyrir frekara nám á sviði félags-og/eða hugvísinda.

 

Síðast breytt: 27. september 2019