Stefnuyfirlýsing í ensku

Helstu áherslur enskunnar eru að nemendur þjálfist í vinnulagi tungumálanemans í gegnum fjölbreytt verkefni sem efla færniþættina fjóra: tal, hlustun, ritun og lestur. Hér tileinka nemendur sér sjálfstæði í vinnubrögðum með það fyrir sjónum að efla lýðræðislega og gagnrýna hugsun með lestri bókmennta, fjölbreyttra rauntexta, í gegnum umræður og margvísleg ritunarverkefni.

Lögð er áhersla á að byggja upp góðan grunn í enskri tungu sem ætlað er að styrkja nemandann til framhaldsnáms og/eða þátttöku í atvinnulífinu.

Helstu námsþættir
Í 1. þreps áfanganum er áherslan á að nemendur styrkist í undirstöðuatriðum enskrar málfræði með lestri og ritun, efli skilning sinn á daglegu máli og geti tjáð sig um einfalda hluti í ræðu og riti.

Í 2. þreps áföngum er lögð áhersla á að nemendur verði læsir á flókinn texta, tileinki sér grunnorðaforða vísinda og fræða (academic vocabulary), tjái hugsun sína skýrt í ræðu og riti, og þjálfist í að rökstyðja skoðanir sínar. Lestri texta, bæði bókmenntatexta og rauntexta, er ætlað að efla lýðræðislega og gagnrýna hugsun. Mikil áhersla er á þjálfun í vinnubrögðum tengdum heimildavinnu og ritgerðarsmíð.

Í 3. þreps áföngum er áherslan á að efla enn frekar nemendasjálfstæði með áherslu á sjálfstæð vinnubrögð, markmiðasetningu í námi og nemendur eru hvattir til að finna sér eigin leiðir í tungumálanáminu. Notast er við umræður og enn viðameiri ritunarverkefni þar sem krafist er mikils frumkvæðis og framlags nemenda.

Kennsluaðferðir og námsmat
Lýðræði og jafnrétti einkennir kennsluhætti, mikil áhersla er á að nemendur og kennari vinni saman. Nemendur meta sig sjálfir jafnt og þétt, sem og samnemendur í gegnum jafningjamat þar sem jafnrétti og uppbyggileg gagnrýni er höfð að leiðarljósi. Kennari leiðbeinir nemendum jafnt og þétt um næstu skref tungumálanámsins, meðal annars með munnlegum og skriflegum umsögunum. Umræður og uppbyggileg skoðanaskipti ráða ríkjum.

Áföngunum er skipt í lotur sem lýkur með verkefnum þar sem nemendur fást við viðfangsefni hverrar lotu. Leitast er við að hafa verkefnin sem fjölbreyttust þannig að nemendur geti sýnt fram á styrkleika sína í tungumálinu.

 

Síðast breytt: 27. september 2019