Viljayfirlýsing vegna barna í viðkvæmri stöðu

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu, sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu, sveitarfélagið Mosfellsbær, heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins og Framhaldsskólinn í Mosfellsbæ hafa ákveðið að vinna saman til að stuðla að farsæld fyrir börn sem eru í viðkvæmri stöðu í Mosfellsbæ og draga úr líkum á ítrekuðu ofbeldi.

Samstarfsaðilar lýsa yfir vilja til að starfa saman og móta og samræma verklag sitt í þjónustu við börn í viðkvæmri stöðu, eins og hægt er innan ramma laga um starfsemi aðila, persónuvernd og mannréttindi. Verklagið nær til miðlunar upplýsinga, samstarfs og þróun samþættingar í þjónustu við börn í viðkvæmri stöðu og forelda/forsjáraðila þeirra.

Í listasal Mosfellsbæjar var í dag undirritað samkomulag þar sem þessir aðilar lýsa yfir skýrum vilja til að þróa áfram samvinnu sína til að tryggja vernd og umönnun barna gegn ofbeldi eða annarri vanvirðandi háttsemi. Við í FMOS erum sérstaklega ánægð með að vera hluti af þessum hópi þar sem unglingar á aldrinum 16-18 ára eru stór hluti af okkar nemendahópi. Í skólanum eru nemendur sem eiga lögheimili í yfir 20 sveitarfélögum en um helmingur þeirra eru þó héðan úr bænum og því er samstarf við Mosfellsbæ sérstaklega mikilvægt. Við væntum því mikils af samstarfi okkar við Mosfellsbæ á þessu sviði í framtíðinni.