Veggjalist í FMOS

Það er gaman að segja frá því að í nýjasta tölublaði Mosfellings (13. tbl. 2021) birtist grein um nýjan myndlistar áfanga í FMOS, MYNL2VL03, þar sem megin viðfangsefnið er veggjalist. Í áfanganum mála nemendur og skreyta veggi í listgreinaklasa skólans. Mikil spenna var fyrir áfanganum og eru 13 nemendur skráðir en áfanginn gerir kröfur um nemendur hafi lokið a.m.k. einum áfanga í myndlist. Flestir eru þeir þó mun reyndari en það og eru mjög öruggir í sinni vinnu.

Í byrjun annar völdu nemendur sér veggi og skissuðu upp hugmyndir. Þeir fengu afnot af gömlum myndvarpa til að varpa myndum upp á vegg eða teiknuðu fríhendis beint á vegginn. Kennarinn, Sigrún Theódóra, biðlaði til bæjarbúa um gamla málningu í gegnum umræðuvef Mosfellsbæjar á FB og fékk frábærar viðtökur. „Við fengum fullt af málningu og málaraverktakar höfðu líka samband við mig og vildu gefa okkur fleiri lítra af málningu. Nemendur hafa síðan notað þekjuliti til að blanda út í veggmálninguna og fengið þannig sína liti sem þeir óskuðu eftir.“ sagði Sigrún.

Þessi vinna hefur undið upp á sig og spurst út fyrir veggi skólans. Meðal annars hafa eigendur nýrrar hársnyrtistofu sem opnaði í haust, Studio 110, haft samband við kennarann og spurt hvort nemendur hefðu áhuga á að koma til þeirra og skreyta nokkra veggi þar með efni úr norrænni goðafræði. Þetta verkefni er í vinnslu en fari það af stað þá verður það núna í jólafríi nemenda og eitthvað fram yfir áramót.