Útskriftarhátíð FMOS

Útskriftarhátíð Framhaldsskólans í Mosfellsbæ fór fram þriðjudaginn 20. desember 2022 við hátíðlega athöfn í húsnæði skólans við Háholt 35 í Mosfellsbæ.

Að þessu sinni voru 24 nemendur brautskráðir. Af opinni stúdentsbraut voru brautskráðir 19 nemendur þar af voru þrír af hestakjörsviði og tveir af listakjörsviði. Einn nemandi var brautskráður af sérnámsbraut. Af félags- og hugvísindabraut var brautskráður einn nemandi og þrír af náttúruvísindabraut.

Skólameistari FMOS Valgarð Már Jakobsson hélt ræðu af þessu tilefni, þakkaði nemendum og samstarfsfólki fyrir samstarfið í vetur og sagði m.a.:

„Hér er stemningin sú að við erum að gera þetta saman. Það er engin keppni í að vera bestur og enginn einn sigurvegari. Það að þið séuð stödd hér í dag þýðir að þið komust öll í mark. Þið eruð öll sigurvegarar, þið unnuð öll. Þetta er líka ástæðan fyrir því að nú erum við búin að ákveða að hætta við að veita viðurkenningar fyrir góðan námsárangur á stúdentsprófi. Einkunnir endurspegla ekki alltaf þrautseigjuna, hugrekkið, svitann og tárin, á bak við árangurinn. Ljósið þitt verður ekki bjartara þótt þú slökkvir á ljósunum í kringum þig.”

Útskriftarnemum FMOS í desember 2022 er óskað innilega til hamingju með árangurinn og þakkað fyrir samstarfið og samveruna og óskað innilega góðs gengis í framtíðinni.