Stafræni Háskóladagurinn

Háskóladagurinn fer fram laugardaginn 27. febrúar milli kl. 12 og 16 en þá gefst öllum sem hyggja á háskólanám kjörið tækifæri að kynna sér allt grunnnám allra háskóla á landinu. Í ár verður Háskóladagurinn alfarið á netinu vegna samkomutakmarkana sem tengjast COVID-19.
 
Um 300 fjarfundir munu tengjast vefnum þar sem hægt verður að fá upplýsingar um allar námsbrautir en á fjarfundunum geta áhugasamir spurt spurninga um námið og spjallað við fulltrúa háskólanna, nemendur og kennara. Á vefnum er afar öflug og einföld leitarvél sem auðveldar verðandi nemendum að finna draumanámið. Leitarvélin birtir námsbrautir frá öllum háskólum landsins en hverri námsbraut fylgja tiltekin leitarorð sem hjálpa notendum við að finna nám þótt þeir slái ekki endilega inn heiti námsbrautarinnar sjálfrar. Fyrst um sinn er áhersla vefsins, sem og Háskóladagsins, á grunnnám en fljótlega að Háskóladeginum loknum verður framhalds- og doktorsnámi bætt við.