Ofurhugar í heimsókn í FMOS

Á mánudaginn komu bræðurnir Halldór og Eiríkur Helgasynir ásamt fríðu föruneyti í FMOS til að nýta okkar frábæra og flotta hús í snjóbréttamyndatökur. Þeir bræðurnir eiga fyrirtækið Lobster sem framleiðir snjóbretti og hluti af því sem líf þeirra snýst um er að finna skemmtilega staði til að stunda áhættuatriðin sín. Skólabyggingin okkar hentar rosalega vel í svona tökur en þetta er ekki í fyrsta sinn sem tökulið mætir á svæðið til að taka upp snjóbrettamyndir. Eitt ofurhugaatriðið var að renna sér niður alla framhlið hússins og stökkva út á götu, (já þið lásuð rétt). „Ísland í dag“ mætti á svæðið og tók viðtal við þá bræður og án þess að Valli aðstoðarskólameistari tæki eftir því þá náðist á filmu þegar hann bað um selfie með Halldóri á pallinum uppi á þriðju hæð. Komst þar upp um hégómagirndina hans. Hér er svo hlekkur á innslagið í „Ísland í dag“. Umfjöllunin um þá bræður byrjar eftir 12:08 mínútur.