Föstudagspistlar

Þá er fyrsta kennsluvika vorannar 2022 að baki. Töflubreytingum lokið, nemendur og kennara búnir að koma sér fyrir og tilbúnir til að bretta upp ermar og takast á við þá vinnu sem fram undan er. Við erum ótrúlega þakklát fyrir að geta byrjað önnina með staðkennslu, krossum fingur og vonum það besta.

Í þessum skrifuðu orðum eru 303 nemendur skráðir í nám í FMOS, þar af eru 30 nýnemar. Nemendur skiptast á átta brautir: Félags- og hugvísindabraut; Framhaldsskólabrú; Náttúruvísindabraut; Opna stúdentsbraut, almennt kjörsvið; Opna stúdentsbraut, hestakjörsvið; Opna stúdentsbraut, íþrótta- og lýðheilsukjörsvið; Opna stúdentsbraut, listakjörsvið og Sérnámsbraut. Lang flestir eða 47% nemenda eru skráðir á Opna stúdentsbraut, almennt kjörsvið. Starfsmenn FMOS eru 38, auk þriggja starfsmanna sem eru í leyfi, og þar af eru 27 kennarar.

Í FMOS er leiðsagnarnám sem gerir töluverðar kröfur á nemendur. Þar sem ekki eru nein stór lokapróf þurfa nemendur að vinna fjölda krefjandi verkefna yfir önnina. Verkefnin eru ýmist einstaklingsverkefni, paraverkefni eða hópaverkefni þannig að það reynir á fjölmarga þætti hjá nemendum, svo sem sjálfstæði, skipulag, úthald og hæfni til samvinnu. Allt eru þetta þættir sem mikilvægt er að ungt fólk þroski með sér áður en það fer út á vinnumarkaðinn og í háskólanám. Við sem hér störfum óskum nemendum okkar alls hins besta. Við viljum að þeim gangi vel í náminu og að þeir gangi sterkir héðan út í lífið að námi loknu. Við gerum okkur hins vegar grein fyrir því að það verður ekki nema nemendur taki ábyrgð. Ábyrgð á sjálfum sér, á náminu sem þeir hafa valið sér, á námsferlinum sínum og síðast en ekki síst ábyrgð á eigin líðan.

Góða helgi!