Föstudagspistill Valla

Enginn pistill kom í síðustu viku sem var bara þriggja daga löng (það er að segja í kennsludögum talið, auðvitað var hún jafn löng og allar aðrar vikur). Því þurfum við að rifja upp allt það sem hefur verið að gerast síðan síðast. Það hefur svo mikið verið að gerast í félagslífinu að annað eins hefur varla sést.

Síðasta vika var Halloween vika með fjölmörgum uppákomum. Þetta hófst á miðvikudeginum þar sem nemendafélagið leigði bíósal í Bíó Paradís og sýndi kvikmyndina Halloween frá 1978. Fullt var út úr dyrum og skemmtu nemendur sér konunglega þó þeim hafi ekki þótt tæknibrellurnar hafa elst sérlega vel.

Kvöldið eftir var draugahús í skólanum þar sem nemendur hræddu líftóruna úr hverjum öðrum. Það var vel mætt og allir skemmtu sér vel. Vikan endaði svo með því að fenginn var förðunarsérfræðingur til að koma í hádeginu á föstudag. Hún sýndi hvernig hægt er að búa til sár og fleira með förðun. Metnaðarfull vika hjá nemendafélaginu!

Á fimmtudaginn í síðustu viku fengu starfsmenn fyrirlestur í ofbeldisforvörnum frá Ofbeldisforvarnarskólanum. Þar ræddi Benna Sörensen við okkur um hvernig hægt er að breyta óæskilegri samskiptamenningu með áhorfendanálgun. Miklar og gagnlegar umræður fóru fram um þróunina í þessum málum og hvað við getum gert til þess að við getum öll fundið til öryggis og liðið vel í skólanum okkar. Við munum klárlega vinna áfram með þessi mál, takk fyrir okkur Benna.

Þennan sama dag fengum við úttektarheimsókn frá Vinnueftirliti ríkisins þar sem farið var yfir öryggismál í skólanum. Skemmst er frá því að segja að aðstæður voru víðast hvar til mikillar fyrirmyndar og varð úttektaraðila á orði að vinnan hans væri mun auðveldari ef aðstæður væru víðar eins og hjá okkur í FMOS. Við fengum hamingjuóskir með húsið okkar en við vissum það nú að það væri frábært.

Síðasta föstudag kom svo síðasti hópurinn af 10. bekkingum úr Kvíslarskóla í bili. Í næstu viku fara svo heimsóknir frá krökkunum í Lágafellsskóla að byrja. Við hlökkum til að kynnast þeim og efumst ekki um að þau verða jafn flott og krakkarnir úr Kvíslarskóla.

Í þessari viku héldum við þjóðfund með nemendum skólans. Þá var öllum nemendum smalað saman inn í matsal eftir hádegi. Fyrirkomulagið var með svokölluðu World Café stíl þar sem 6 nemendur settust við hvert borð og glímdu við eitt viðfangsefni eða spurningu í einu. Á öllum borðum voru pennar og „post-it“ miðar sem nemendur gátu skrifað á og límt á eitt veggspjald á miðju borði. Öll umræðuefnin snérust um að skilgreina hvað væri einkennandi og gott við skólann okkar og hvað mætti bæta. Eftir hverja spurningu stóðu nemendur upp og skiptu um borð svo við fengjum fjölbreyttari samsetningu á hópunum. Kennarar og starfsmenn gengu svo á milli borðanna og báðu um nánari útskýringar á því sem var óljóst. Þjóðfundurinn heppnaðist einstaklega vel og voru nemendur og starfsmenn almennt í skýjunum með hann. Svona uppbrot á skólastarfi er líka alltaf hressandi og það er líka svo gott að heyra hvað nemendum liggur á hjarta. Þetta er líka mikilvægur hluti af þeirri lýðræðisvitund sem við viljum vekja hjá nemendum okkar.

Í gær fóru svo nemendur á ball á Akranesi sem haldið var í sameiningu með fjölbrautaskólanum þar, auk MB í Borgarnesi og FSN á Snæfellsnesi. Nemendur héðan fóru saman í rútu frá skólanum og skemmtu sér konunglega. Ballið var mjög vel heppnað og allt fór vel fram. Það er óhætt að segja að nemendur okkar hafi verið skólanum sínum til sóma og er nú þegar farið að ræða það að hafa fleiri sameiginleg böll með þessum skólum enda eiga þeir margt sameiginlegt.

Í vikunni fór fram 8. þing Kennarasambands Íslands. Þetta var farsælt þing þar sem ellefu nefndir mótuðu starf KÍ til næstu fjögurra ára. Á þinginu voru gerðar nokkrar breytingar á lögum og stefnur markaðar og nýjar siðareglur smíðaðar. Á þinginu var í fyrsta sinn mörkuð umhverfisstefna KÍ. Björk Margrétardóttir, enskukennari, var fulltrúi kennarafélags FMOS á þinginu og sat í skólamálanefnd. Við þökkum Björk fyrir sitt framlag því það er mjög mikilvægt að við séum sýnileg á þessum vettvangi.

Að lokum óskum við nemendum og kennurum sem eru að fara til Ítalíu í kvöld, góðrar ferðar. Þau eru að fara læra ýmislegt um matarmenningu Ítala og fara meðal annars með í truffluleit í ítölskum skógi. Við hlökkum til að heyra allar sögurnar og fá að sjá myndirnar þegar þau koma til baka.

 

Þá er ekki fleira að sinni heyrumst í næstu viku, kveðja Valgarð (Valli) aðstoðarskólameistari.