Föstudagspistill Valla 21. okt

Skólastarfið gekk sinn vanagang í vikunni. Á þriðjudaginn áttu allir að vera búnir að velja sér áfanga fyrir næstu önn. Einhverjar eftirlegukindur eru þó alltaf innan um og ég hvet þá sem eiga eftir að velja að kíkja til Svanhildar eða Alla námsráðgjafa til að ganga frá þessu. Þeir sem ekki velja áfanga geta átt hættu á því að detta út úr kerfinu okkar og ekki viljum við það.

Á miðvikudaginn hittist útskriftarhópurinn okkar eftir skóla til að skipuleggja útskriftargleðina sína. Það er mjög gaman að sjá svona samrýmdan útskriftarhóp sem ætlar sér að kveðja skólann sinn með pompi og prakt.

Á kennarafundi á fimmtudag fengu kennarar kynningu frá nemendunum sem fóru til Danmerkur um daginn til að fræðast og ræða við önnur ungmenni um mannréttindi og stöðu mannréttinda í löndum þátttakenda. Þetta hefur greinilega verið mjög lærdómsrík ferð sem mun eflaust lifa lengi í minnum þeirra. Á myndinni eru þrjú þeirra, Arnaldur, Kristján og Matthildur Sela en Sávia komst ekki á kennarafundinn. Með þeim á myndinni er Dóra dönskukennari sem fylgdi hópnum út. Takk kærlega fyrir mjög áhugaverða kynningu. Þið voruð skólanum ykkar greinilega til sóma í Danmörku.
Í verkefnatíma í dag voru Svanhildur og Alli námsráðgjafar og Lilja Dögg hjúkrunarfræðingur með Ráðgjafaspjallið. Þetta er opið spjall með nemendum þar sem tekið er fyrir ákveðið málefni í hvert sinn. Í þessari viku var umræðuefnið skipulag, það er hvernig við getum minnkað líkurnar á að við gleymum að gera verkefni eða að við lendum í því að geta ekki klárað verkefnin okkar. Mjög gagnlegar umræður og hvet ég nemendur til að fylgjast vel með og missa ekki af spjallinu næsta föstudag. Þá verður spjallað um fjármál. Meira verður fjallað um ráðgjafaspjallið í næstu viku.
10. bekkingar halda áfram að streyma til okkar í kynningarheimsóknir. Það er mikill hugur í þessum flottu krökkum og við vonumst að sjálfsögðu til þess að sjá þau sem flest koma til okkar í haust. Nemendafélagið er búið að vera mjög sýnilegt í vikunni, með tónlist í hádeginu og upphitun fyrir Hrekkjarvökuna í næstu viku. Þau voru að byrja að skreyta skólann þegar við vorum að fara út í haustfrí. Margt er á döfinni í næstu viku og í lok dags var að verða uppselt á bíósýningu sem þau eru búinn að skipuleggja í Bíó Paradís næstkomandi miðvikudagskvöld.

Eigið frábært haustfrí og sjáumst úthvíld og endurnærð á miðvikudag.
Valli, aðstoðarskólameistari.

Halloween2ÚtskriftarnemarDanmerkurfarar