Föstudagspistill Valla

Föstudagur, frábært veður og engir tímar. Vonandi nutu nemendur veðurblíðunnar í dag á meðan kennarar unnu í námsmati.

Föstudagspistillinn verður í styttra lagi í dag í takti við styttri kennsluviku. Á úrvinnsludegi eru kennarar að vinna í námsmati fyrir miðannarmat. Á miðri önninni erum við að taka saman stöðuna til þess að eiga samtal við nemendur um stöðuna. Mjög margir kennarar nýta næstu viku í viðtöl við nemendur en leiðsagnarnámið snýst mjög mikið um samskipti. Ef vel á að vera þá þurfa kennarar ekki bara að veita leiðsögn um verkefni nemenda heldur þurfa þeir að finna leiðir til þess að fá nemendur til að tileinka sér leiðsögnina. Þetta er mikið sérfræðingsstarf og eru kennarar skólans sífellt að leita leiða til að vera skilvirkari í þessu.

Í vikunni mátuðu útskriftarefni okkar stúdentshúfur til þess að geta smellt á kollinn í desember. Fyrirtæki sem framleiða slíkar húfur koma þá í heimsókn og það er alltaf pínu tregablandið að sjá nemendur sem við höfum kynnst svo vel og fengið þann heiður að veita leiðsögn undirbúa það að fljúga úr hreiðrinu. En auðvitað erum við umfram allt stolt af því að hafa fengið að fylgjast með þeim þroskast og styrkja sig sem námsmenn hjá okkur.

Í gær gengu nemendur úr kennslu til að taka þátt í mótmælum gegn kynbundnu ofbeldi og til að krefjast þess að skólar komi sér upp skýrum verkferlum þegar slík mál koma upp til að verja þolendur. Við erum að sjálfsögðu stolt af unga fólkinu okkar sem lætur í sér heyra til að búa okkur betri heim. Vel gert nemendur!

Í næstu viku hefst valtímabilið hjá okkur með valtorgi í verkefnatíma á þriðjudag. Þá munu kennarar kynna áfanga sem verða í boði á næstu önn og í kjölfarið geta svo nemendur valið þá áfanga sem þeir hafa hug á að vera í á næstu önn. Nýir nemendur munu hitta umsjónakennara sína á næstu dögum sem munu aðstoða við að velja í fyrsta sinn. Af gefnu tilefni vil ég benda á það að frjálst val er hluti afa öllum stúdentsbrautum og nemendur geta valið einn til tvo áfanga á hverri önn utan kjarna. Langbest er að byrja strax að velja valáfanga því ef nemendur geyma það þar til í lokin þá lenda þeir oft í því að missa af áföngum sem þeir hefðu gjarnan viljað taka. Sumir áfangar eru nefnilega bara kenndir einu sinni eða tvisvar og aðrir á annarri eða þriðju hverri önn. Mjög gott er að vera alltaf í einhverjum áfanga sem veitir lífsfyllingu og gleði til hliðar við hefðbundnari áfanga (þó þeir veiti að sjálfsögðu lífsfyllingu og gleði líka).

Njótið helgarinnar og festið trampólínin fyrir sunnudagsóveðrið.