Föstudagspistill Valla

Það er að koma helgi og það þýðir bara eitt, nýr föstudagspistill (reyndar þýðir það örugglega margt fleira). Vikan bar svolítið keim af því af því að hlutirnir séu að komast í fastar skorður, nemendur eru allir með nóg að gera og á kafi í verkefnum en hafa þó sem betur fer tíma til að hafa gaman líka.

Nemendafélagið heldur áfram að slá í gegn með skemmtilegum uppákomum. Ég er loksins að jafna mig á súru gúrkuátskeppninni í hádeginu á miðvikudag en þá kepptu nemendur og kennarar í því að vera sem fljótastur að klára 5 súrar gúrkur og skola því niður með glasi af súrum legi. Dýrindis máltíð en einhverra hluta vegna er mig ekki enn farið að langa í meira. Það er hins vegar gaman að segja frá því að nemendur voru mun fljótari að innbyrða gúrkurnar en við kennarar og sigurvegarinn af hálfu nemenda var Ólöf Bára. Kolla vann svo kennarakeppnina með tilþrifum. Sigurvegararnir fengu svo auðvitað stóra krukku af súrum gúrkum í verðlaun. Öfund!

Í undanförnum pistlum hef ég sagt frá góðum gestum sem heimsótt hafa skólann okkar en á miðvikudag fengum við bestu gestina hingað til. Foreldrar nemenda komu á foreldrafund milli 17:00 og 18:30. Það er skemmst frá því að segja að við munum ekki eftir jafn góðri mætingu á foreldrafund en okkur taldist til að það hefðu komið 76 foreldrar og forráðafólk á fundinn. Það er algjörlega ómetanlegt að finna það hvað nemendur skólans eiga upp til hópa gott bakland. Umsjónarkennarar fóru yfir skipulagið í skólanum og svo gátu gestir gengið um og rætt við kennara skólans. Umræður voru mjög frjóar og gagnlegar. Þetta gefur okkur aukinn kraft við að halda áfram að gera það sem við höfum trú á. Takk kærlega fyrir komuna.

Það var meira um líf og fjör í vikunni því á fimmtudag kom Geðlestin í heimsókn í verkefnatíma. Í stað þess að nota verkefnatíma í hefðbundinn lærdóm söfnuðust nemendur í sal skólans og fræddust um mikilvægi geðræktar. Geðlestin er samstarfsverkefni Geðhjálpar og Hjálparsíma Rauða krossins 1717. Hugmyndin er að vekja athygli á mikilvægi geðheilsu og verndandi þáttum hennar. Við þurfum öll að glíma við eitthvað á lífsleiðinni og það er mikilvægt að geta talað um tilfinningar okkar við einhvern sem við treystum eða þá nafnlaust í gegnum hjálparsímann 1717. Sérstaklega þótti mér gott að sjá hversu jákvæð nálgunin var hjá Geðlestinni og má þar til dæmis orðabók Geðhjálpar , https://gedlestin.is/ordabok-gedheilsu/. Þar eru alls konar hugmyndir að því hvernig bæta má líðan, samskipti, sjálfsvirðingu og fleira. Heimsóknin endaði líka heldur betur á jákvæðum nótum en skilaboðin voru einmitt að gera hluti sem veita okkur vellíðan og þá er fátt betra en tónlist. Emmsjé Gauti náði upp mikilli stemningu í húsinu þó enn væri ekki komið hádegi. Ég segi það alla vega fyrir sjálfan mig að eftir að hafa sungið hástöfum „ég er alinn upp á malbiki“ var geðið komið á hærra stig.

Þá er ekki meira frá mér að sinni. Við Emmsjé Gauti óskum ykkur góðrar helgar. Heyrumst í næstu viku.