Föstudagspistill Valla 25. nóv

Komið þið sæl. Jæja, síðasti föstudagur nóvembermánaðar og nú sit ég og skrifa pistilinn á nýrri skrifstofu þar sem ég er að leysa af sem skólameistari fram að áramótum. Þetta verður því „Föstudagspistill Valla skólameistara“ fram að jólum.

Það er að koma smá jólabragur á þetta hjá okkur hér í FMOS. Óli húsvörður er farinn að draga fram jólaskrautið og aðrir fyrirboðar jóla eru að dúkka upp.

Útskriftarhópurinn okkar er að dimmitera í dag og í morgun snæddu starfsmenn og útskriftarnemar saman bröns a‘la Inga Rósa (afsakið sletturnar). Þetta er skemmtileg hefð sem hefur fest sig í sessi hjá okkur þar sem nemendur fá hinar sígildu spurningu „hvað á svo að fara að gera eftir útskrift“ frá kennurum sínum. Krakkarnir ætla svo að gera sér glaðan dag í áframhaldinu og mér skilst að stefnan sé tekin á Karókí og Keilu í kvöld, góða skemmtun.

Annar fyrirboði jóla er að á fimmtudag í næstu viku ætlum við að vera með jólamat í hádeginu. Skráning er í gangi í upplýsingamiðstöðinni og verður opin út næsta mánudag. Við munum búa til góða jólastemningu með dúkum, jólatónlist og arineld (á skjávarpa til öryggis). Ég hef einnig haft veður af því að nemendafélagið ætli að vera með jólapeysudag þennan dag. Ég er strax farinn að hlakka til.

Á þriðjudag næstu viku ætlar Árni Kristjánsson, ungliða- og aðgerðastjóri Íslandsdeildar Amnesty International að mætir með vinnusmiðju í tengslum við undirskriftasöfnunina Þitt nafn bjargar lífi. Nemendum fá kynningu á mannréttindastarfi og verklegar æfingar í framkomu og eflingu á sjálfstrausti. Nemendum sem taka þátt í vinnusmiðjunni er svo frjálst að taka þátt í undirskriftasöfnun fyrir Þitt nafn bjargar lífi í matsal í hádeginu. Við hvetjum nemendur til að taka þátt en nánari staðsetning á námskeiðinu verður auglýst eftir helgi.

Að lokum langar mig að segja frá verkefni sem er í gangi í umhverfisfræðivaláfanganum okkar. Þau eru nú á fullu að undirbúa sig fyrir verkefnadaga þar sem þau ætla að halda svokallaða Diskósúpu. Upphaflega kemur verkefnið frá „Slow food“ samtökunum þar sem að verið er að vekja athygli á matarsóun með því að koma saman, hafa gaman, spila tónlist og elda súpu úr hráefni sem annars hefði endað í ruslinu! Nú vinna þau að því að hafa samband við birgja og verslanir og safna saman grænmeti sem að er ekki lengur upp á sitt besta en þó vel nýtanlegt. Úr hráefninu munu þá svo elda súpur og til þess að fara með verkefnið lengra ætla þau svo að dreifa afurðinni í frískápa á höfuðborgarsvæðinu! Frábært framtak og þarft. Við vonum að það verði vel tekið á móti þeim þegar verkefnið fer í gang. Þetta er annars áfanginn sem fór til Ítalíu um daginn og hér á eftir kemur smá ferðasaga frá Ítalíuferðinni ásamt myndum. Ferðasagan er skrifuð af Karen Woodrow sem kennir áfangann ásamt Erlu Hrönn Geirsdóttur.

Þá er ekki fleira að sinni ég er að fara á jólafund skólameistarafélags Íslands og svo beint á tónleika með Sigurrós í Höllinni. Ég hlakka mikið til. Síðasta verkið mitt í dag var að hleypa smiðnum inn sem að leggja lokahöndina á að festa upp körfuboltaspjaldið okkar sem við erum búin að bíða eftir alla önnina. Hafið þið það sem allra best um helgina.

Valli skólameistari.

 

Hraðsoðin ferðasaga frá Ítalíu.

Dagur 1: Flogið var til Mílanó þar sem hópurinn fékk frjálsan dag til þess að spóka sig um, skoða menningu og lífið í borginni og almennt búðarráp. Sumir skoðuðu fótboltavöllinn, aðrir lentu á götumarkaði á meðan aðrir stunduðu búðarráp. Fyrsta kvöldið fórum við á æðislegan fjölskyldu rekinn pizza stað sem að bíður upp á eldbakaðar pizzur!

Dagur 2: Haldið var til Pollenzo þar sem að við gistum næstu 3 nætur. Hópurinn var svo heppinn að fá „upgrade“ á 4 stjörnu hótel! Pollenzo er mjög lítið þorp þar sem að Slow food Háskólinn er til húsa í gullfallegum húsakosti. Ferðinni var haldið til Alba þar sem að við heimsóttum Slow food markað með um 30 smá framleiðendum. Nemendur spókuðu sig um fram eftir kvöldi og borðuðu fjölbreyttan mat. Það var mikið líf og fjör í Alba enda hin margrómaða truffluhátíð í gangi.

Dagur 3 : Fyrir hádegi fengum við kynningu á Háskólanum í Pollenzo. Það var mjög gaman að fræðast um námsbrautir sem þar eru í boði og hversu fjölbreytt nám er í boði, þó svo að það tengist þó allt mat og drykk á einhvern máta. Við heimsóttum vín bankann sem er rekinn af skólanum þar sem að vín eru send til þroskunar. Bókasafnið var merkilegt en þar voru einungis bækur tengdar mat og drykk! Við kláruðum kynninguna á því að borða saman í mötuneytinu. Flestir í hópnum enduðu daginn á strætóferð til Bra og skoðuðu þar þorpið þar sem að Slow food samtökin voru stofnuð af Carlo Petrini árið 1989.

Dagur 4: Þessi dagur var troðfullur af skemmtilegheitum. Við byrjuðum í verslun sem að sérhæfir sig í að þroska osta. Við fengum að fara niður í kjallara þar sem verið er að þroska stór hjól af Parmigiano Reggiano og Grana Padano, en báðir þessir ostar eiga sér merkilega sögu. Í lok kynningarinnar settumst við niður og smökkuðu 11 tegundir af ostum og þar var frábært að sjá hversu tilbúnir nemendur voru til þess að smakka ostana. Sá vinsælasti var klárlega mjúkur hvítmygluostur úr buffalo mjólk. Næst var förinni heitið á hunangsbú þar sem að hunang er verkað eftir hefðbundnum aðferðum. Á jörðinni var mikil líffjölbreytileiki og á meðan við gengum um sveitina gátum við týnt perur af trjám og nartað í.

Við settumst svo niður undir 100 ára gömlu kirsuberjatré og smökkuðum mismunandi gerðir af hunangi sem var mjög áhugavert. Eigandinn er ung kona sem að tók við rekstrinum af föður sínum. Við fengum því einnig innsýn frá hennar hálfu hvernig það er að vera ung kona með lítil börn í fyrirtækja rekstri á Ítalíu. Hún sagði að það væri vissulega áskorun en það var aðdáunarvert að hlusta á hana og allan tímann var hún með 3 mánaða gamlan son sinn í burðarpoka.

Næst var förinni heitið á truffluveiðar þar em við fræddumst um hefðir og aðferðir við truffluleit. Fyrir þá sem ekki vita þá eru trufflur mjög verðmætur neðanjarðarsveppur. Á árum áður var notast við svín í leit að þeim en núna er að mestu notast við hunda. Trufflum fylgir sérstakur ilmur og eru hvolparnir vandir á lyktina með því að setja truffluolíu á spena móðurinnar.

Um kvöldið fórum við svo á heimili hjá nokkrum nemendum Háskólans í Pollenzo og áttum æðislega skemmtilega kvöldstund. Þar lærðum við pastagerð, borðuðum lasagna og smökkuðum meðal annars yfir 20 tegundir af grænmeti, allt úr héraði!