Föstudagspistill Valla

Það er kominn föstudagur einu sinni enn og önnur viðburðarrík vika að baki. Það er heldur haustlegra að líta út um gluggann en í síðustu viku en það er þó bjart yfir okkur hér inni eins og alltaf.

Við erum með þrjá skiptinema hjá okkur þessa önnina en þeir setja alltaf skemmtilegan svip á skólann. Þau Anna Perrier frá Frakklandi, Mike Liepina frá Lettlandi og Marion Roseline Vanquaethem frá Belgíu koma til með að auðga skólabraginn með því að vera hjá okkur í vetur. Ég kíkti í heimsókn í tíma hjá Þorbjörgu sem sér um íslenskukennslu fyrir nemendur sem ekki hafa íslensku að móðurmáli. Þar voru skiptinemarnir okkar að læra að búa til íslenskar setningar með Klöru Janackovu sem kemur frá Tékklandi og Mahmood Zahid Tahseen frá Kúrdistan. Það er ótrúlegt hvað hægt er að læra mikið í íslensku á stuttum tíma þegar gleðin og áhuginn er í fyrirrúmi, en Þorbjörg er greinilega að ná þeim með sér í að læra okkar ástkæra og ylhýra tungumál. Ég hlakka mikið til að fylgjast með þeim í vetur.

Í verkefnatímum geta nemendur valið hvar þeir eru að vinna og geta gengið að kennurum sínum vísum í klösunum til að fá aðstoð við verkefni sín. Ég ætla að fjalla nánar um verkefnatímana í næsta pistli en það er ekki alltaf strit og alvara. Í verkefnatíma á fimmtudag var haldin liðakeppni í pílukasti í þar sem þriggja manna lið kepptu sín á milli. Það var liðið Tin Tin sem bar sigur úr býtum eftir harða keppni. Nemendafélagið stefnir á að halda alls konar svona viðburði í vetur.

Til þess að öllum líði sem best í skólanum við leik og störf þurfum við samt að passa vel uppá umgengni, bæði við hvert annað og húsið. Aðeins hefur borið á því að lítill hópur nemenda mætti passa betur uppá þetta. Við vitum þetta öll, svo hjálpumst nú að við að sníða vankantana af þessu.

Í vikunni fengum við góðar heimsóknir eins og vanalega. Það kom stór hópur skólastjórnenda frá Danmörku til okkar á miðvikudag. Tilgangur Íslandsreisu þeirra var að læra af okkur Íslendingum hvernig hægt er að stemma stigu við unglingadrykkju. Auðvitað er menningin í þessum málum ólík milli landanna að nokkru leyti en þau voru áhugasöm að sjá hvernig við bærum okkur að við að halda áfengislausa (já þið lásuð rétt) nemendaviðburði. Þau öfunduðu okkur talsvert þegar við sögðum þeim að nemendum okkar myndi ekki einu sinni hafa hugmyndaflug í að hafa áfengi með í opin hús í skólanum. Halla forvarnarfulltrúi gaf þeim nokkrar hugmyndir um hvernig hægt er að virkja nemendur í heilbrigða samveru. Að lokum gengum við Halla með þeim um skólann og sögðum þeim frá hvernig kennsluhættir okkar leggja grunninn að góðum skólabrag. Styrkur okkar liggur greinilega í því hvað skólinn er persónulegur og hrifust gestirnir mjög af því sem þau sáu hér. Það kom þeim skemmtilega á óvart hvað nemendur okkar voru fúsir til að spjalla við þau að fyrra bragði og segja frá því sem þau voru að gera. Frábær heimsókn og stórt hrós til nemenda okkar. Þið eruð frábær!

Ég vil enda á að minna aftur á foreldrafundinn okkar næsta miðvikudag klukkan 17:00. Þar er kjörið tækifæri fyrir foreldra að koma og kynnast skóla barna sinna betur. Af gefnu tilefni má taka fram að við erum ekki að gera ráð fyrir nemendum á foreldrafundinn. Þið verðið örugglega ekki vinsæl ef þið verðið einu foreldrarnir sem dragið barnið ykkar með. Á fundinum munu umsjónakennarar fara yfir skólastarfið og sérstaklega að aðstoða foreldra við að styðja við nám barna sinna. Einnig verður hægt að spjalla við einstaka kennara en þeir verða til viðtals í klösunum. Sérstaklega gæti verið áhugavert að kynna sér nýtt fyrirkomulag í undirbúningshópum í kjarnagreinunum (það verður kynnt í klasa erlendra tungumála kl. 18:00). Gert er ráð fyrir því að fundinum verði lokið í síðasta lagi klukkan 18:30.

Þá er komið að lokum hjá mér í dag. Ég er farinn út í þessa yndislegu og óvenjulega lóðréttu rigningu.