Föstudagspistill Valla 14. okt

Valtorg
Valtorg

 

Í verkefnatíma á þriðjudag hófst valtímabilið með látum þegar við héldum valtorg í matsalnum. Kennarar kynntu þá áfanga sem í boði verða á næstu önn með sínu nefi. Nemendur gátu gengið á milli og fræðst um þá fjölbreyttu flóru valáfanga sem þeir hafa hannað. Í kjölfarið var opnað fyrir valið í Innu og geta nú nemendur valið það sem þeim hugnast að vera í á næstu önn.

Eftir hádegi á þriðjudag kom svo hópur af dönskum menntaskólanemendum ásamt tveimur kennurum í heimsókn til að kynnast skólanum okkar. Dóra dönskukennari tók á móti þeim og fengu þeir að fylgjast með kennslu og kynnast krökkunum okkar. Flottur hópur af krökkum og það væri gaman ef við gætum endurgoldið heimsóknina einhvern tíma fljótlega.

Alla vikuna hafa kennarar verið í óða önn að taka miðannarmatsviðtöl við nemendur en það er liður í að gera nemendur meðvitaðri um stöðu sína í náminu. Samtalið milli nemenda og kennara er lykilþáttur í því leiðsagnarnámi sem stundað er í FMOS.

Á fimmtudag kom stór hópur kennara víðs vegar að úr Evrópu til að kynna sér kennsluhætti okkar en þetta er þáttur í námskeiði á vegum Erasmus+. Skemmst er frá því að segja að kennararnir héldu vart vatni yfir hugmyndafræðinni okkar, kennsluháttum, byggingunni. Þeir fengu líka að vera vitni að því að við erum að framkvæma það sem við segjumst vera að gera. Eftir að hafa rætt við kennara og nemendur og fylgst með kennslu sögðu þau „your school is such an inspiration for us to reform our own schools“. Við megum nú bara vera svolítið stolt af því.

Á fimmtudag kom líka fyrsti hópurinn af mörgum 10. bekkingum úr grunnskólum Mosfellsbæjar í heimsókn. Það er alltaf mjög gaman að taka á móti þeim til að kynna fyrir þeim það sem við höfum uppá að bjóða og svo var þeim boðið í mat í hádeginu. Hann var ekki af verri endanum, safarík lambasteik og kalkúnabringa, ásamt salatbar og fleira. Mikið fjör var í matsalnum því nemendur okkar, grunnskólanemendur og evrópsku kennararnir borðuðu saman undir rapptónlist frá nemendafélaginu. Í anddyrinu var líka pílukastkeppni með veglegum verðlaunum.

Ítalíufararnir í Umhverfisfræði fylltu svo anddyrið í hádeginu í dag með varningi sem þau eru að selja sem lið í fjáröflun sinni. Ég læt hér að lokum fylgja með nokkrar myndir úr smakkáskorun þeirra þar sem þau voru að smakka alls kyns þjóðlegan íslenskan mat.

 

Eigið yndislega helgi

Valli, aðstoðarskólameistari.