Föstudagspistill Valla 11.11.22

Dagur einhleypra eða singles day, 11.11.22. Í huga margra kannski enn einn dagurinn til að fá fólk til að kaupa einhvern óþarfa en óneitanlega lítur dagurinn fallega út á prenti og veitir mörgum þráhyggjueinstaklingum hugarró. Fyrir okkur stærðfræðingar er hann sérstaklega fallegur í ár þar sem 11+11=22. En ég held að ég ætti að snúa mér að pistlinum því að annars dett ég í þá gryfju að leika mér að tölum það sem eftir lifir dags.

Það er önnur góð vika að baki hér í FMOS. Á þriðjudaginn var algjörlega frábært nemendaþing á alþjóðlegum baráttudegi gegn einelti. Jóna Benediktsdóttir skólastjóri Varmárskóla kom til okkar í byrjun annar með þá hugmynd að leiða saman nemendur úr FMOS og nemendur úr 5. og 6. bekk Varmárskóla í þetta verkefni. Félag- og uppeldisfræðikennari okkar, Kolbrún Jónsdóttir, vann svo með Jónu að framkvæmdinni. Afraksturinn var ótrúlega vel heppnað málþing þar sem grunnskólanemendur ræddu um birtingamyndir eineltis og leiðir til að sporna við því. Nemendur úr félagsfræði- og uppeldisfræðiáföngum í FMOS stýrðu umræðum í hverjum hóp. Það er frábært að geta leitt saman hópa úr ólíkum skólastigum þar sem báðir hóparnir fá dýrmæta menntun í þátttöku í lýðræðissamfélagi. RÚV gerði svo stórt innslag í Kastljósi um viðburðinn og ég verð að viðurkenna að ég var alveg að rifna úr stolti yfir nemendum okkar. Takk, Jóna, fyrir að bjóða okkur að vera með og vonandi verður þetta upphafið að reglulegu samstarfi milli skólanna.

 

 

Nú eru 10. bekkingar í Lágafellsskóla næstir á gestalistanum okkar frá grunnskólum bæjarins. Við tókum á móti fyrsta hópnum þaðan á miðvikudag. Þetta var hress og skemmtilegur hópur sem var óhræddur við að kíkja í kennslustundir til að sjá það sem var í gangi. Við vonum svo sannarlega að við sjáum sem flest þeirra hjá okkur næsta haust.

Ítalíufararnir okkar í umhverfisfræðiáfanganum komu aftur heim á miðvikudag eftir vel heppnaða matarferð. Í næstu viku ætla ég að vera búinn að fá myndir og sögur sem má deila með ykkur.

Í gær, fimmtudag, fengum við góða heimsókn til okkar hingað í FMOS. Það var nýi bæjarstjórinn okkar hún Regína Ásvaldsdóttir. Stjórnendur kynntu fyrir Regínu sögu og hugmyndafræði skólans í skemmtilegu spjalli sem endaði á skoðunarferð um skólann. Við eigum örugglega eftir að vera í góðum samskiptum við hana á komandi árum, en við höfum alltaf fundið fyrir miklum hlýhug bæjarstjórnar í okkar garð. Okkur finnst líka mjög mikilvægt að vera í góðum tengslum við yfirstjórn fræðslu-, velferðar- og menningarmála í bænum enda lítum við á okkur sem mikilvægan þátt í bæjarbragnum. Góð tengsl milli skólastiga eru líka þáttur í því og gera samvinnuverkefni eins og nemendaþingið á þriðjudag mögulegt.

En nú er ég að bregða mér upp í rútu með samstarfsfólki mínu. Við erum á leiðinni austur í Hveragerði á Hótel Örk í þróunarvinnu. Við ætlum að ræða hvernig stefna skólans endurspeglast í skólastarfinu og hvort við þurfum að breyta, bæta og skýra framsetninguna þannig að hún gefi góða mynd af því sem við stöndum fyrir. Við viljum svo gjarnan finna leiðir til þess að sem flestir viti af því frábæra starfi sem unnið er í skólanum okkar.

Heyrumst í næstu viku, Valli aðstoðarskólameistari

P.s. þróunarvinnan heppnaðist alveg frábærlega. Mikill hugur var í fólki og fullt af frábærum hugmyndum komu fram í hópastarfinu. Það eru mikil forréttindi að fá að vinna með svona frjóum og skapandi einstaklingum. Við enduðum svo á frábærum kvöldverði í boði skólans.