Föstudagspistill föstudaginn þrettánda

Jæja föstudagurinn þrettándi. Það hlaut að koma að því að þessi skelfilega dagsetning dyndi á okkur. Það eru margar tilgátur um það af hverju föstudagurinn þrettándi er talinn óhappadagur en að mér vitandi er ekki til nein ákveðin skýring. 13 er óhappatala samkvæmt hjátrú og föstudagur sömuleiðis óhappadagur. Kannski er það skýringin á því að þegar þetta tvennt kemur saman þá hræði hjátrúarfulla sérlega mikið. Ein skemmtileg kenning um töluna 13 er að 12 norræn goð hafi setið að veislu. Loka var ekki boðið í veisluna en hann birtist óboðinn og hleypti öllu í bál og brand eins og hans var von og vísa. Föstudagurinn þrettándi kemur alla vega upp einu sinni á hverju ári og stundum þrisvar. En nóg um föstudaginn þrettánda.

FMOS er búinn að fá fullt af spennandi óskum um samstarf við erlenda skóla sem krefjast þess að við séum með virkan Erasmus+ aðgang. Því sit ég nú og fylli út eyðublöð fyrir Evrópusamstarf. Þvílíkt torf! En jæja, tökum smá hlé til að skrifa föstudagspistil.

Hér í FMOS er skólastarfið að komast í fastar skorður. Fyrsta heila vikan er að baki og stundatöflubreytingum lokið. Í upphafi annar þurfa nemendur að verða sér út um námsbækur og þá er gott að geta nýtt sér skiptibókamarkaði. Talsverð virkni hefur verið á síðu skiptibókamarkaðs FMOS sem okkur þykir auðvitað mjög gleðiegt. Það er bæði umhverfisvænna og hagkvæmara að kaupa notaðar bækur. Kíkið endilega á Facebook-síðu skiptibókamarkaðarins með því að smella á þennan hlekk: Skiptibókamarkaður.

Við erum að undirbúa eftirlitsúttekt á jafnlaunakerfi skólans sem við fengum vottun á fyrir nokkru. Því fylgir töluverð vinna með tilheyrandi innri úttektum og fleiru. Vinna við Græn skref gengur vel. Græn skref er verkefni fyrir ríkisstofnanir sem vilja draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum af starfsemi sinni og efla umhverfisvitund starfsmanna. Meira um það í næsta pistli.

Kennaranemarnir okkar eru komnir í gang svo það eru öll hjól farin að rúlla. Útskriftarnemar streyma inn á skrifstofu til Ingu Þóru áfangastjóra til að skrá sig í útskrift í vor. Nemendafélagið okkar er komið á fullt. Þann 19. janúar verður haldin undankeppni fyrir söngkeppni framhaldsskólanna. Kíkið á Instagram-síðu nemendafélagsins til að þá nánari upplýsingar um skráningu og dagskrá. Undirbúningur fyrir árshátíð nemenda er hafinn og verið er að velta fyrir sér listamönnum til að troða upp.

Annars er ekki mikið að frétta. Ég ætla að snúa mér aftur að umsóknarferlinu fyrir Erasmus+. Heyrumst í næstu viku.

Valli aðstoðarskólameistari.