Föstudagspistill 9. desember

Sæl öll. Föstudagspistillinn er skrifaður á laugardegi að þessu sinni enda viðburðarrík og annasöm vinna að baki.

Í dag, 10. desember, er alþjóðlegur dagur mannréttinda en hann hefur verið sýnilegur í skólastarfinu í vikunni. Í gær var boðið uppá súkkulaðiköku í hádeginu þar sem kökusneiðarnar voru misstórar til að minna á það að það fá ekki allir jafn stóra sneið af köku lífsins. Svala og Dóra sem fara fyrir Unesco nefnd skólans stóðu fyrir þessari áhugaverðu uppákomu.

Kennslu er að ljúka en síðasti kennsludagur annarinnar er næsta mánudag. Mannréttindi hafa verið sýnileg í ýmsum lokaverkefnum í vikunni og langar mig að segja frá tveimur þeirra núna. Í dönsku lét Dóra nemendur vinna verkefni um stöðu flóttamanna í Danmörku. Eitt af þeim voru skapandi skrif þar sem nemendur eiga að ímynda sér líf sitt ef þeir væru í stöðu Abdullah, sýrlensks drengs á flótta, sem á yfir höfði sér að vera sendur aftur til Sýrlands frá Danmörku. Hvað myndu þeir taka með sér, ef þeir þyrftu skyndilega að flýja land, hvert myndu þeir fara, hvernig myndi þeim líða o.s.frv. Þetta gerði það að verkum að það kviknuðu umræður um stöðu flóttafólks í kringum okkur og athygli vaknaði á málefnum tengdu flóttafólki. Tinna stærðfræðikennari var með verkefni í fjármálalæsisáfanganum sem snéri að því að bera saman framfærslu mismunandi fjölskyldna í mismunandi löndum. Hægt er að skoða heimilisaðstæður fjölskyldna á heimasíðunni https://www.gapminder.org/dollar-street. Með þessu kynntust nemendur aðstæðum fólks um allan heim og báru svo saman við hver framfærslan er á Íslandi og hvernig þeim myndi ganga að fóta sig hér með sömu framfærslu. Ég mæli með að þið skoðið þessa síðu.

Annað skemmtilegt lokaverkefni sem mig langar að segja frá er verkefni sem nemendur unnu í áfanganum „Kvikmyndir og saga“ hjá Halldóri sögukennara. Í lokaverkefninu settu nemendur saman drög að handriti fyrir kvikmynd sem tengist einhverju úr Íslandssögunni. Nemendur völdu t.d. að gera um Svarta dauða, eldgosið í Heimaey, Axlar-Björn og Spánverjavígin. Nú er bara að bíða eftir því að Baltasar Kormákur smelli í eina Hollywood stórmynd úr þessu.

Ég tók þátt í tveimur stórmerkum og mikilvægum viðburðum í vikunni. FMOS gekk frá samkomulagi um samstarf á tveimur vettvöngum sem báðir snerta nemendur á ólíkan hátt þó. Á mánudag kom framkvæmdastjóri Bridgesambands Íslands, Matthías Imsland, í heimsókn og við handsöluðum samstarf sem snýr að því að útbreiða veg bridgeíþróttarinnar í framhaldsskólum. Bridge er eina hópíþróttin sem Íslendingar hafa orðið heimsmeistarar í en ég var sjálfur í framhaldsskóla á þeim tíma. Ég var hluti af stórum hópi ungs fólks sem kolféll fyrir þessu spili og við æfðum og spiluðum ca. 40 klukkustundir á viku, ekki ólíkt því sem ungmenni í öðrum afreksíþróttum gerir, til að ná árangri. Undanfarin ár hefur nýliðun í þessari frábæru íþrótt ekki verið góð en nú er uppsveifla sem við viljum stökkva á. Bridgesambandið ætlar að bjóða fram kennslu í bridge á framhalddskólastigi, skólum að kostnaðarlausu en við í FMOS höfum útbúið áfanga sem hægt er að bjóða fram í öllum framhaldsskólum landsins. Hægt verður að taka þátt á netinu fyrir skóla úti á landi og FMOS mun bjóða nemendum að taka áfangann í fjarnámi hjá okkur ef áfanginn verður ekki boðinn fram í heimaskóla þeirra. Ég er mjög spenntur fyrir því að taka þátt í þessu verkefni og hrósa Matthíasi og Bridgesambandinu fyrir þetta frábæra framtak.

Á föstudaginn skrifaði ég undir annað samkomulag fyrir hönd FMOS í listasal Mosfellsbæjar. Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu, sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu, sveitarfélagið Mosfellsbær, heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins og Framhaldsskólinn í Mosfellsbæ hafa ákveðið að vinna saman til að stuðla að farsæld fyrir börn sem eru í viðkvæmri stöðu í Mosfellsbæ og draga úr líkum á ítrekuðu ofbeldi. Samstarfsaðilar lýsa yfir skýrum vilja til að þróa áfram samvinnu sína til að tryggja vernd og umönnun barna gegn ofbeldi eða annarri vanvirðandi háttsemi. Við erum sérlega ánægð með þetta samstarf því að það er náttúrulega svo að stærsti hluti okkar nemenda eru undir 18 ára aldri og því enn börn í skilningi laganna. Nemendur okkar koma frá um 20 sveitarfélögum en helmingur þeirra eru samt frá Mosfellsbæ og því er sérlega mikilvægt að vera í góðu samstarfi við stoðkerfið hér. Það mun líka eflaust hjálpa okkur við að eiga gott samstarf við hin sveitarfélögin um stuðning við nemendur sem eru annars staðar frá.

Takk fyrir vikuna og við heyrumst að viku liðinni.

Valli skólameistari