Föstudagspistill 3. nóv

Sæl öll. Það er fallegur föstudagur í Mosfellsbæ og viðburðarrík vika að baki hér hjá okkur í FMOS. Við komum endurnærð til starfa eftir langþráð haustfrí í síðustu viku.

Undanfarin haust hefur nemendafélagið búið til draugahús á Hrekkjarvökunni og í ár datt þeim það snjallræði í hug að opna það fyrir almenning og bjóða krökkunum í bænum að koma milli 18 og 19:30. Þetta sló heldur betur í gegn og áætlað er að á milli 500-600 manns hafi komið og látið hræða úr sér líftóruna. Á umræðuvettvangi Mosfellsbæjar rigndi svo hrósi yfir nemendur okkar þannig að þetta mældist greinilega mjög vel fyrir. Vel gert krakkar! En þetta er sko ekki það eina sem er í gangi hjá nemendafélaginu þessa dagana því á miðvikudag í síðustu viku fengu þau bíósal í Bíó Pardís og horfðu saman á myndina Scream. Mæting var góð og allir skíthræddir, mest þó Halla íþróttakennari. Í næstu viku er svo Stórball í Víkinni í Fossvogi sem haldið er í samstarfi við Borgó, FB, FÁ og Tækniskólann. Ef einhverjir miðar eru enn eftir má kaupa þá með því að smella á eftirfarandi hlekk: Hlekkur á miðasölu. Þvílíkur kraftur í nemendafélaginu.

Eins og ég sagði í síðasta pistli er skólinn okkar tilnefndur til Íslensku menntaverðlaunanna sem afhent verða í næstu viku. Af því tilefni kom RÚV til okkar í gær og tók upp myndefni og viðtöl við nemendur og starfsfólk sem sýnt verður samhliða verðlaunaafhendingunni í sjónvarpinu næsta miðvikudagskvöld. Endilega fylgist með því og krossið fingur fyrir því að við hreppum verðlaunin. Spennustigið hér er orðið eins hátt og á Reykjanesinu!

Á þessari önn höfum við gert gangskör að því að opna leiðir fyrir erlent samstarf. Stórir alþjóðlegir sjóðir styrkja alls konar skólasamstarf og nú viljum við vera með. Dóra dönskukennari hefur verið að koma okkur inn í Nordplus verkefnið en hún er búin að koma á samstarfi FMOS við grænlenska framhaldsskólann GUX Nuuk sem mun efla tengsl þessara tveggja skóla og nemenda okkar og stuðla að frekara samstarfi í framtíðinni. Halldór sögukennari er kominn inn í verkefnið með henni og stefna þau á að heimsækja GUX Nuuk í byrjun næstu annar. Arnar heimspeki og kvikmyndafræðikennari hefur svo verið að vinna fyrir okkur umsókn að Erasmus+ netinu og erum við nú búin með pappírsvinnuna í kringum það. Í framtíðinni opnast því alls konar möguleikar á að vera í erlendu samstarfi bæði með nemendur og kennara.

Að lokum vil ég svo minna á að á mánudaginn í næstu viku er endurskiladagur. Þá falla hefðbundnir tímar niður og nemendur geta unnið upp verkefni sem þeir hafa misst af í samráði við kennara. Þeir nemendur sem hafa staðið skil á öllu þurfa ekki að mæta þennan dag en ég hvet alla nemendur til þess að vera í sambandi við kennara sína til þess að fara yfir stöðuna ef þeir hafa ekki gert það nú þegar.

Þetta var pistill vikunnar, upphaflega ætlaði ég að senda hann út á föstudag en mig vantaði myndir af draugahúsinu. Ég er ekki enn kominn með þær svo ég hendi inn mynd af biðröðinni í anddyrinu. Njótum það sem eftir er helgarinnar og fylgjumst með Reykjanesinu (ætli ferðaþjónustan standi fyrir þessu?).