Föstudagspistill 24. nóv.

Sæl öll og gleðilegan, fallegan fannhvítan föstudag.

Við í FMOS erum enn á rósrauðu skýi yfir þeirri viðurkenningu sem okkur hlotnaðist með íslensku menntaverðlaununum 7 nóvember. Á fimmtudeginum og föstudeginum á eftir sat ég ráðstefnu skólameistara með ráðuneytisfólki þar sem aðrir skólameistarar, mennta- og barnamálaráðherra og hans fólk kepptist við að óska okkur til hamingju og segja hversu vel við værum að þessum verðlaunum komin. Verðlaunin hlutum við fyrir þróun leiðsagnarnáms en við höfum verið í fararbroddi í innleiðingu þess á framhaldsskólastigi. Slíkt gerist náttúrulega ekki að sjálfu sér. Við erum með einstakan hóp kennara sem hefur haft sameiginlega sýn frá upphafi við að koma okkur á þann stað sem við erum í dag. Þetta hvetur okkur áfram við að þróa okkur áfram í þá átt að bjóða upp á metnaðarfullt nám í umhverfi þar sem nemendum og starfsfólki líður vel.

Það er svolítið liðið frá síðasta pistli en ég ætla að stikla aðeins á stóru um ýmislegt sem hér hefur verið að gerast undanfarið.

Miðvikudaginn 6. nóvember fór Kolbrún félags- og uppeldisfræðikennari með nemendur frá okkur til þess að vera borðstjórar á nemendaþingi 5. og 6. bekkja í Varmárskóla þar sem umræðuefnið var einelti. Þetta er annað árið sem Jóna Benediktsdóttir skólastjóri hefur leitað til okkar með þetta einstaka samvinnuverkefni milli skólastiga. Nemendur okkar stóðu sig að sjálfsögðu með prýði og úr varð frábær dagur.

Á fimmtudag í síðustu viku var dagur íslenskrar tungu og af því tilefni bauð Þorbjörg íslenskukennari nemendum og starfsfólki að draga sér málshátt eða spakmæli í okkar frábæra anddyri. Heilmiklar vangaveltur og umræður fóru svo fram um það sem dregið var, þar sem merkingin var krufin. Einnig var hengdur upp listi með nýyrðum Jónasar Hallgrímssonar og var margt á honum sem kom nemendum á óvart og kannski undirstrikar það af hverju fæðingardagurinn hans var valinn sem dagsetning fyrir dag íslenskrar tungu.

Í vikunni kom síðasti hópurinn af 10. bekkingum úr grunnskólum í nágrenni okkar. Þau hafa fengið kynningu á skólanum og gengið um og skoðað. Auðvitað hafa heimsóknirnar endað á að hópunum hefur verið boðið í mat í okkar frábæra mötuneyti. Orðsporið hefur greinilega borist til þeirra því þau spyrja gjarnan strax hvað sé í matinn :) Flottir krakkar og vonandi sjáum við mörg þeirra næsta haust.

Í fyrradag kíkti ég á hópinn hans Þrastar eðlis-, stærðfræði og tölvufræðikennara sem fór með hóp nemenda í FabLab í Breiðholti. Þetta voru nemendur í áfanganum Myndvinnsla og tölvuteikning og voru þau að nota aðstöðuna í FB til þess að „prenta“ hluti í timburfræsara. Flott framtak og það væri sannarlega spennandi ef við gætum komið okkur upp vísi af svona aðstöðu.

Árni Kristjánsson frá ungliðahreyfingu Amnesty International kom til okkar í gær og ræddi mannréttindamál við nemendur skólans. Nemendur voru hvattir til þess að beita sér í baráttunni gegn mannréttindabrotum í heiminum með söfnun undirskrifta. Hægt er að skrifa undir áskorun um lausn pólitískra fanga með því að smella á QR-kóðann á myndinni sem fylgir. Það er kannski við hæfi á þessum víðsjárverðu tímum að minnast á það að þetta var 23. skólaheimsókn Árna og hún fór fram þann 23. nóvember árið 2023. Fyrir þau sem eru ekki heltekin af tölunni 23 eins og ég þá er talan 23 tengd við Eris gyðju óreiðunnar í grískri goðafræði en það má alveg segja að það sé ansi mikil óreiða víða í veröldinni í dag. Eins og Árni orðaði það sjálfur að maður gleymir stundum hvað maður getur verið þakklátur fyrir hvar við búum.

Talandi um töluna 23 (sem ég gæti reyndar talað endalaust um) þá kíkti á dagatalið neðst í horninu á tölvunni minni þegar ég ætlaði að hætta að skrifa, 14:21 24.11.2023 (1+4+2+1+2+4+1+1+2+0+2+3=23). Það er meira að segja til sérstök fælni við þessa tölu sem heitir eikositriophobia. Góða helgi og passið ykkur á tölunni 23 😊

P.S. myndvinnslan kláraðist klukkan 15:20 og reiknið nú.