Föstudagspistill

Framhaldsskólanemendur við Nykøbing Katedralskole voru á Íslandi í nokkra daga og ákváðu kennarar þeirra ásamt kennara og 12 nemendum í dönskuáfanga í FMOS að skipuleggja smá hitting í Reykjavík. Markmiðið var að hittast í litlum hópum og ganga um miðbæinn og spjalla. Á dönsku, að sjálfsögðu! Það var mjög vel heppnað, veðrið var með besta móti og var þetta skemmtilegt uppbrot í kennslunni. Danirnir voru áhugasamir um leiðsagnarnámið hjá okkur í FMOS og nemendur skiptust á skoðunum um kennsluhætti og skólahefðir.

Nykøbing Katedralskole er framhaldsskóli í Nykøbing Falster, í ca. 100 km fjarlægð frá Kaupmannahöfn. Þetta er rúmlega 500 ára gamall skóli með margar hefðir og þetta er í þriðja skiptið sem kennarar og nemendur koma til Íslands og hitta okkur í FMOS.