Útskriftarhátíð 20. desember 2023

Útskriftarhátíð Framhaldsskólans í Mosfellsbæ fór fram miðvikudaginn 20. desember við hátíðlega athöfn í húsnæði skólans við Háholt 35 í Mosfellsbæ.

Að þessu sinni var 31 nemandi brautskráður. Af félags- og hugvísindabraut voru brautskráðir fjórir nemendur og sex af náttúruvísindabraut. Af opinni stúdentsbraut- almennu kjörsviði var tuttugu og einn nemandi brautskráður.

Í ræðu skólameistara kom meðal annars fram að „leiðsagnarnám, þessi verkefnamiðaða nálgun á námsefnið, er að ryðja sér til rúms út um allt í menntakerfinu en FMOS hefur verið í fararbroddi við þróun hennar allt frá stofnun skólans. Þess vegna hlaut FMOS Íslensku menntaverðlaunin nú í haust. Sá heiður er innspýting í skólastarfið og viðurkenning á því frábæra starfi sem unnið er í FMOS. Af þessu tilefni talaði mennta- og barnamálaráðherra um FMOS sem leiðarljós fyrir aðra í kennsluháttum. Heimsóknir erlendra gesta eru tíðar og undantekningarlaust eru þeir yfir sig hrifnir af því sem þeir verða vitni að hér í FMOS. Það er eftirsótt að komast að í FMOS sem kennaranemi og við erum búin að fá beiðni um að taka við kennaranemum erlendis frá, einnig er FMOS að stórefla alþjóðlegt samstarf bæði í gegnum Erasmus+ og Nordplus junior.“

Að lokum þakkaði skólameistari stúdentum fyrir samstarfið og óskaði þeim velfarnaðar í framtíðinni.