Alþjóðadagur fjölmiðlafrelsis

Þann 3. maí síðastliðinn hélt FMOS, sem er UNESCO skóli, upp á Alþjóðadag fjölmiðlafrelsis. Ekki er vanþörf á þar sem Ísland er komið niður í 18. sæti þegar kemur að fjölmiðlafrelsi. Til samanburðar má geta að hin norrænu löndin verma fimm efstu sætin. Við fengum til okkar áhugaverða fyrirlesara sem héldu erindi m.a. um mikilvægi fjölmiðlafrelsis.

Chanel Björk frá Mannflórunni hélt rafrænt erindi þar sem hún talaði m.a. um birtingarmyndir sem við sjáum í fjölmiðlum um fólk af erlendum uppruna og hvernig fjölmiðlar eru á sama tíma mikilvæg tól til að brjóta niður fordóma og skapa samfélag þar sem jafnræði og inngilding ríkir.

Vala Ósk Fríðudóttir, fræðslustjóri hjá Amnesty International kom og hélt áhugaverðan fyrirlestur um mannréttindi og fjölmiðlafrelsi og hvernig þetta tvennt tengist.

Sigríður Dögg Auðunsdóttir, formaður blaðamannafélags Íslands hélt erindi um fjölmiðla og blaðamennsku og sköpuðust mjög góðar umræður, m.a. um það hvað gerist ef fjölmiðlar eru ekki frjálsir.

Okkar flotta nemendaráð sá svo um skipulag eftir hádegi og fengu þau til sín Kára Sigurðsson og Andreu Marel en þau voru með fræðsluerindið „Fokk me – Fokk you“ sem fjallar um sjálfsmynd, samfélagsmiðla og samskipti kynjanna.

Hér má sjá frétt af vef RÚV þar sem fjallað er um fjölmiðlafrelsi og viðtal við nokkra nemendur FMOS um daginn.