Alþjóðadagur kvenna og stúlkna í vísindum

Alþjóðadagur kvenna og stúlkna í vísindum verður haldinn hátíðlegur um heim allan sunnudaginn 11. febrúar en þar sem við erum ekki í skólanum á sunnudögum þá tókum við forskot á sæluna og héldum upp á daginn í dag, föstudaginn 9. febrúar. Nemendur mættu í hús klukkan 10 og dagskráin hófst með því að Dóra dönskukennari bauð nemendur velkomna og sagði stuttlega frá deginum. Að því loknu hélt Sigríður Kristjánsdóttir, náttúrvársérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, áhugavert erindi um náttúruvárvöktun. Eftir það gengu nemendur í hópum um skólann og leystu hinar ýmsu þrautir sem allar tengdust stúlkum og konum í vísindum á einn eða annan hátt. Dagurinn heppnaðist mjög vel og var í senn skemmtilegur og lærdómsríkur.