Föstudagspistill á mánudegi

Gleðilegan bóndadag!

Þorrinn byrjar með látum og ég er að vona að þetta verði ekki einkennandi fyrir föstudaga vorannar. Í haust var svo oft frábært veður á föstudögum svo það væri mun ánægjulegra ef það mynstur héldist. Í gamla daga áttu bændur að fagna Þorra með því að fara berleggjaðir á skyrtunni og hoppa í kringum bæinn á annarri löppinni í einni buxnaskálm. Ég efast nú um að margir hafi haldið í þann sið í morgun.

Það er búið að vera góð vika hér í FMOS. Á mánudaginn var líf og fjör þegar snjóbrettabræðurnir Halldór og Eiríkur Helgasynir komu ásamt fríðu föruneyti í FMOS til að nýta okkar frábæra og flotta hús í snjóbréttamyndatökur. Skólabyggingin okkar hentar rosalega vel í svona tökur en þetta er ekki í fyrsta sinn sem tökulið mætir á svæðið til að taka upp snjóbrettamyndir. Það var ótrúlega gaman að fylgjast með þeim leika listir sínar.

Kennaraliðið er búið að vera á fullu að undirbúa fjarkennsluviku sem hefst eftir rúma viku með því að hrista rykið af fjarkennslugræjunum. Í vikunni fyrir mun ég senda út röð myndbanda fyrir nemendur um hvað er gott að hafa í huga við fjarkennsluna og úrlausnir við ýmsum tæknilegum vandamálum. Skólinn verður opinn fyrir nemendur svo hægt er að finna sér gott horn til að vera í fjartíma hér í húsinu fyrir þá sem vilja vera innan um fólk. Ég vil minna ykkur öll á að athuga hvort TEAMS virki ekki örugglega hjá ykkur.

Ég hafði hugsað mér að klára að skrifa þennan pistil eftir handboltalandsleikinn við Svíþjóð á föstudagskvöld. En eins og örugglega margir var ég eins og sprungin blaðra eftir leik og gat ekki komið stafi á blað (skjá). Því kemur pistillinn aðeins seinna til ykkar að þessu sinni því seinni hlutinn er skrifaður á mánudegi.

Á fimmtudag hélt nemendafélagið forkeppni fyrir söngkeppni framhaldsskólanna í hádeginu. Slegið var upp sviði og fjórir þátttakendur, Sávia, Selma, Aníta og Helga tróðu upp. Mikil stemning var í matsalnum og mikið klappað fyrir frábærri frammistöðu keppenda. Í lokin setti Sigurður Óli formaður nemendaráðs í gang netkosningu um sigurvegarann. Sigurvegarinn verður svo kynntur á mánudag og ég mun segja ykkur frá því hver vann í næsta pósti.

 

Að lokum langar mig að segja ykkur frá því að FMOS er með lið sem keppir í Framhaldsskólaleikum Rafíþróttasamtaka Íslands eða FRÍS. FMOS er með keppendur í leiknum Valorant og hefja leik á fimmtudaginn. Þeir sem keppa fyrir hönd FMOS eru Heimir Snær, Bergsveinn Kári, Svanhvít Birna, Bergvin Snær, Magni Fannar, Reynir Ími og Ísak Jón. Gangi ykkur vel.

Eitt í viðbót! Síðasti dagurinn til að skrá sig úr áföngum er á fimmtudaginn. Eftir það er ekki hægt að hætta í áföngum á þess að fá fall á ferilinn.

Heyrumst næsta föstudag.

Valli aðstoðarskólameistari.