Byggjum brýr

Nemendur af íslenskubrautum Kvennaskólans í Reykjavík og Framhaldsskólans í Mosfellsbæ komu saman dagana 15. og 16. maí ásamt nokkrum nemendum af öðrum brautum Kvennó. Nemendur tóku þátt í fræðandi og skemmtilegri dagskrá undir yfirskriftinni Byggjum brýr. Verkefnið var styrkt af Þróunarsjóði innflytjendamála og er samstarfverkefni kennara íslenskubrautar skólanna og fleiri aðila.

Fyrri daginn fengu nemendur fræðslu um íslenska framhaldsskólakerfið, fjölmenningu og fordóma og unnu fjölbreytt og skapandi verkefni. Seinni daginn kynntu brúarsmiðir frá Reykjavíkurborg og Miðju máls og læsis þjónustu sína og deildu eigin reynslu af því að flytja til Íslands. Samfélagslögreglan mætti og kynnti starfsemi sína og átti gott samtal við nemendur. Þá var fræðsla um ábyrgð einstaklinga á eigin heilsu og aðgengi að heilbrigðisþjónustu. Deginum lauk með leikjum utandyra í blíðskaparveðri, þar sem fulltrúar Keðjunnar, nemendafélags Kvennó, stýrðu hluta af dagskránni. Að lokum nutu þátttakendur grillveislu saman.

Dagskráin heppnaðist afar vel og það tókst svo sannarlega að byggja brýr á milli nemenda, skóla og samfélaga!