Stefnuyfirlýsing í efnafræði

Í efnafræði í FMOS er lögð áhersla á að nemendur tileinki sér skipulögð vinnubrögð og vinni sjálfstætt. Lögð er áhersla á samvinnu við úrlausn verkefna.

Helstu námsþættir
Í áföngum á öðru þrepi er áhersla lögð á grunnþætti efnafræðinnar sem undirbýr nemendur fyrir sérgreinar efnafræðinnar svo sem eiginleika lotukerfis, efnahvörf, efnajöfnur, og hugtakið mól. Einnig er farið í varmafræði.

Á þriðja þrepi er fjallað um efnatengi og auk þess sérhæfðari viðfangsefni svo sem hraðafræði, flokkunarkerfi lífrænna efna og efnafræði lofttegunda.

Kennsluaðferðir og námsmat
Áhersla er á verkefnavinnu. Í hverri viku fá nemendur verkefni sem þeir hafa vikuna til að ljúka. Þessi verkefni geta nemendur unnið á sínum hraða og lokið við þau heima ef á þarf að halda. Þarna er komið til móts við mismunandi vinnuhraða nemenda og jafnframt lögð áhersla á sjálfstæði og ábyrgð nemenda á námi sínu. Auk þessa eru reglulega verkefni, oft hópverkefni, sem ætlast er til að nemendur leysi áður en kennslustund lýkur. Flest þessara verkefna eru skrifleg en einnig gera nemendur nokkrar verklegar æfingar á hverri önn. Nemendur eru hvattir til að ræða viðfangsefni sín við hópfélaga og aðstoða hver annan. Samræðurnar dýpka skilning nemenda á viðfangsefnunum auk þess sem nemendur þjálfast í samvinnu við úrlausn verkefna.

Námsmat byggir að mestu leyti á verkefnavinnu auk könnunarprófa sem dreifð eru yfir önnina.
Annað
Námsbókin í efnafræði er á ensku. Nemendur fá þannig þjálfun í að lesa fræðilegan texta í raungreinum á ensku og auðveldar það nemendum að takast á við lestur á ensku á háskólastigi. Efnafræði er mikilvæg námsgrein fyrir margar greinar háskólanáms svo sem efnafræði, lyfjafræði, ýmsar greinar verkfræði og heilbrigðisvísindi.

Síðast breytt: 27. september 2019