Föstudagspistill Valla

Góðan og gleðilegan föstudag!

Þó haustið sé að nálgast brosir sólin við okkur á þessum fallega degi.

Mikil gleði er í húsinu með frábæran nýnemadag sem var haldinn í gær. Nýnemum var skipt upp í hópa sem leystu ýmsar þrautir, sungu í karókí og tóku þátt í ýmsum leikjum. Að sjálfsögðu var pylsupartíið á sínum stað. Ein þrautin sem átti að leysa var að hóparnir áttu að klæða sig úr sokkunum á meðan þeir héldu bala fullum með vatni á lofti. Áhorfendum til mikilla vonbrigða tókst öllum hópunum að framkvæma þetta án þess að balinn steyptist yfir þau. Nokkrum sinnum mátti litlu muna þó.

Aðstoðarskólameistari (einnig þekktur sem Valli) fór í „opinbera heimsókn“ í kennslustundir í dag og það var frábært að sjá virknina í öllum kennslustundum. Það er óskaplega gott að sjá að það endurspeglast í kennslustofunni sem við vitum að nám á að snúast um. Nemandinn þarf að vera virkur í eigin námi og góð samskipti milli nemenda og kennara eru nauðsynleg til að leiðsögnin skili sér. Vel gert kennarar og nemendur!

Hér um miðjan pistill kemur smá tilkynningu frá stjórnendum í FMOS.

Nú styttist í foreldrafundinn okkar en þá bjóðum við foreldrum að koma í heimsókn til þess að fræðast um námið hér og kynnast umsjónarkennurum barna sinna. Okkur þykir mjög mikilvægt að vera í góðum tengslum við foreldra því þeir geta hjálpað okkur mjög mikið við að styðja við nemendur í námi sínu. Foreldrafundurinn verður haldinn þann 14. September, milli 17:00 og 18:30. Við hvetjum foreldra til að mæta.

Í dag og síðasta föstudag hafa verið haldin stöðupróf í ensku, dönsku og spænsku sem fjölmargir nemendur víða að hafa þreytt. Þetta eru yfirleitt einstaklingar sem hafa búið í löndum þar sem þessi tungumál eru töluð og geta flýtt fyrir sér í framhaldsskóla með því að sýna fram á kunnáttu sína með þessum hætti. Við höfum því verið með nemendur úr fjölmörgum skólum í heimsókn hjá okkur auk þess sem nokkrir nemendur hafa fengið að spreyta sig á þeim í MA og VMA fyrir norðan undir yfirsetu námsráðgjafa og áfangastjóra þar.

Margir framhaldsskólakennarar, bæði hérlendis og erlendis, hafa áhuga á að kynna sér nánar leiðsagnarnám og kennsluhætti okkar hér í FMOS. Í vikunni fengum við nokkrar heimsóknir. Á þriðjudag komu bæði kennarar frá Spáni og Danmörku. Dóra, dönskukennari, tók á móti dönsku gestunum og fylgdust þær með kennslustund í dönsku ásamt fleiri fögum og spjölluðu við kennara og nemendur um námið, kennsluhættina, verkefnatímana o.s.frv. Í framhaldinu er svo von á þeim aftur í haust og þá með danskan nemendahóp. Í dag kom svo Lisa Mangoran, lögfræðingur og áhugakona um menntun í heimsókn. Hún er frá Malasíu og Ástralíu og far að fylgjast með því frábæra starfi sem verið er að vinna á sérnámsbrautinni okkar. Krakkarnir tóku vel á móti henni og áttu í engum vandræðum með að vera í samskiptum við hana á ensku.

Sem sagt, frábær vika að baki og það er augljóst að önnin lítur ákaflega vel út. Megi helgin ykkar vera frábær og sjáumst á mánudag.