Fréttir

COVID-19 og andleg líðan

18.3.2020 Fréttir

Þegar ástandið er eins og það er í þjóðfélaginu núna er skiljanlegt að margir finni fyrir auknum kvíða eða jafnvel depurð. Hér koma nokkur góð ráð frá sálfræðingi skólans sem geta stuðlað að betri andlegri líðan meðan þetta gengur yfir. 

Áhyggjur

 • Þegar við erum kvíðin höfum við tilhneigingu til að ofmeta líkurnar á að eitthvað slæmt gerist og vanmeta getu okkar til að takast á við það. Það er því mikilvægt að við áttum okkur á því að þó okkur líði eins og það muni eitthvað slæmt gerast, þá gæti kvíðatilfinningin örlítið verið að blekkja okkur þegar við erum að meta hversu líklegt það er.
 • Þegar við erum kvíðin og höfum tilhneigingu til að búast við því að allt fari á versta veg, þá er mikilvægt að leita líka að mótrökum gegn þeim ótta en ekki bara leita að því sem staðfestir þessar áhyggjur. Þannig tekur maður báðar hliðar inn í myndina og kemst að raunsærri niðurstöður, í stað þess að einblína einungis á það neikvæða.
 • Dæmi um mótrök þegar við erum að takast á við miklar áhyggjur eru til dæmis þessi:

 1. Flestir fá bara væg einkenni og jafna sig á þessu eins og hverri annarri pest.
 2. Þó þeir sem eru eldri og hafa undirliggjandi sjúkdóma séu í aukinni áhættu á að veikjast alvarlega, þá er líka meiri hluti þeirra sem nær sér aftur.
 3. Aldrei hefur verið gripið til jafn mikilla aðgerða til að koma í veg fyrir smit, sérstaklega fyrir fólk í áhættuhópum, svo líkurnar á því að allra viðkvæmasta fólkið smitist til að byrja með eru ekki mjög miklar.
 4. Langflestir eru að passa sig og fylgja leiðbeiningum yfirvalda um fyrirbyggjandi aðgerðir til að koma í veg fyrir smit.
 5. Við erum með vel undirbúið heilbrigðiskerfi til að taka á móti þeim sem veikjast, veiran er ekki að koma okkur á óvart eins og hún gerði í Kína og það hefur mikil áhrif á það hversu vel við munum geta hjálpað fólki sem veikist. Tölur úr þeirra aðstæðum eiga því ekki endilega við um okkur hér.

 • Þessi staða er ný í samfélaginu og það getur verið ágætt að minna sig á að við umgöngumst ýmsar aðrar hættur í dagsdaglegu lífi sem við höfum lært viðeigandi viðbrögð við og valda almennt ekki miklum kvíða. Gott dæmi um þetta er umferðin, hún getur vissulega verið hættuleg og jafnvel banvæn. Okkur hefur verið kennt hvernig eigi að draga úr þeirri hættu með því að t.d. líta til beggja hliða áður en við förum yfir götu, setja á okkur belti þegar við erum í bíl, ekki vera í símanum þegar við erum að keyra og fleira í þessum dúr. Þetta finnst okkur sjálfsagt mál að gera og látum áhyggjur af mögulegum slysum í umferðinni sjaldnast valda okkur miklum kvíða.
 • Það getur verið ágætt að horfa á þessar nýju aðstæður með svipuðum augum, læra viðeigandi forvarnir eins og að þvo hendur reglulega, nota handspritt, lágmarka snertingu við andlit, hósta og hnerra í olnboga eða í einnota klút, takmarka umgengni við viðkvæma einstaklinga o.s.frv. Þannig ,,spennum við okkur í bílbelti“ í þessum faraldri.

Upplýsingar – Hvaðan og hversu oft

 • Við viljum vera rétt upplýst og vita hvað er verið að ráðleggja fólki, en sums staðar eru rangar upplýsingar í gangi, hlutirnir blásnir upp og skrattinn málaður á vegginn.
 • Gott er að velja sér fáa og trausta staði til að fá þessar upplýsingar frá og sleppa því að lesa mikið um COVID-19 á öðrum stöðum.
 • Góðar og traustar síður sem veita fólki áreiðanlegar upplýsingar eru t.d. www.covid.is og www.landlaeknir.is.
 • Fréttamiðlar fjalla um fátt annað þessa dagana, kvíðinn getur orðið ansi stór partur af deginum ef við liggjum yfir þessum fréttum hverri á fætur annarri. Gott er því að takmarka hversu oft við erum að tékka á nýjustu fréttum, t.d. ákveða að kíkja á stöðuna á morgnanna, svo kannski aftur á kvöldin og láta það duga. Þá ætti maður að fá allar nauðsynlegar upplýsingar án þess að þetta taki yfir daginn hjá manni.

Rútína

 • Þó kennsla fari fram í gegnum fjarbúnað þessa dagana og nemendur því mikið bara heima hjá sér, þá er samt sem áður gott fyrir okkur að halda ákveðinni rútínu í deginum.
 • Það þýðir að borða reglulega, fara að sofa og vakna á svipuðum tíma og venjulega, hreyfa sig og tala við vini.
 • Einnig er gott að taka ákveðinn tíma dags frá fyrir námið eins og við gerum þegar við mætum í skóla. Ef við pössum upp á daglegu rútínuna okkar þá stuðlar það að jákvæðum áhrifum á hugsun, einbeitingu og líðan.

Uppbyggileg bjargráð

 • Þó við séum kannski að fara minna út úr húsi er mikilvægt að halda áfram að sinna því sem er uppbyggilegt fyrir okkur og ýtir undir vellíðan. Hlusta á skemmtilega tónlist, hreyfa okkur, gera framtíðarplön, sinna áhugamálum og jafnvel rifja upp gömul áhugamál sem maður er hættur að sinna eða prófa eitthvað alveg nýtt.
 • Félagslegur stuðningur er alveg ómetanlegur ef þetta ástand reynir mikið á andlegu hliðina hjá okkur. Það getur verið gott að ræða áhyggjur sínar við vini eða ættingja, finna einhvern sem maður treystir til að ræða sína líðan við. En það er líka mjög mikilvægt að tala um eitthvað allt annað við vini sína og fjölskyldu líka, spjalla um eitthvað skemmtilegt og dreifa huganum frá áhyggjum til að leyfa þeim ekki að eiga of stóran hluta dagsins hjá okkur.

Tímabundið ástand

 • Síðan að lokum er alltaf gott að minna sig á að þetta er tímabundið ástand sem er að ganga yfir núna og við erum með traust og hæft fólk sem vinnur hörðum höndum við það að þetta haldist á viðráðanlegu stigi fyrir heilbrigðiskerfið okkar sem stuðlar að öryggi allra. Við erum því eins og áður segir ekki í þeirri stöðu eins og kom upp í Kína þar sem þessi veira kom fólki á óvart sem gerði það að verkum að mjög erfitt reyndist að ráða við ástandið. Ísland er búið að undirbúa sig undir þetta enda var vitað fyrir fram að þetta myndi á endanum berast hingað og viðeigandi ráðstafanir voru gerðar. Fylgjum því ráðleggingum, hugsum vel um okkur sjálf og sýnum ástandinu þolinmæði meðan það gengur yfir.

Hér er síðan góð umfjöllun frá sálfræðingi Menntaskólans í Hamrahlíð um COVID-19 sem er gott að hlusta á ef maður er að upplifa vanlíðan tengt ástandinu: http://dotakassinn.buzzsprout.com/763889/2980381-covid-19-ahrif-ovissu-a-andlega-lidan-9-thattur

Here is a podcast from Bóas, the psychologist in Menntaskólinn í Hamrahlíð, about mental health and COVID-19 in english: http://dotakassinn.buzzsprout.com/763889/2982829-covid-19-how-we-react-to-uncertainty-and-how-it-affects-us-psychologically

Til baka Senda grein


Útlit síðu:Þetta vefsvæði byggir á Eplica